Vandinn við íslenska stjórnmálamenn er að þeir velja alltaf skyndilausnir, að sögn Lars Christensen, aðalhagfræðings Danske Bank í Danmörku. Hann segir engu skipta hvar á pólítíska litrófinu stjórnmálamennirnir standa, til hægri eða vinstri. „Þannig var í pottinn búið þegar allt var á uppleið á Íslandi. Þá vildi engin horfa til framtíðar. Þannig er jafnframt í pottinn búið í dag, þar sem stjórnmálamenn eru æstir í að senda öllum tékka til þess að tryggja vinsældir sínar til næstu ára,“ segir hann í samtali við Bloomberg-fréttuna. Lars Christensen setur fyrirvara við aðgerðir stjórnvalda gegn skuldavanda heimilanna. Líta megi á aðgerðirnar sem verðlaun fyrir að skuldasetja sig um of. Fleiri gjalda varhug við aðgerðunum, þar á meðal Efnahags- og framfarastofnunin (OECD) sem mælir fremur með því að vextir verði hækkaðir og mælir með því að haldið verði áfram að hjálpa þeim sem þurfi á aðstoð að halda.

Bloomberg-fréttaveitan fjallar um leiðir ríkisstjórnarinnar til að færa niður verðtryggðar skuldir landsmanna. Hópur sérfræðinga á vegum ríkisstjórnarinnar hefur unnið að tillögum að aðgerðum og á að skila þeim fyrir mánaðamótin. VB.is hefur sagt líkur á að það verði gert í dag. Morgunblaðið sagði í morgun forystumenn stjórnarflokkanna horfa til þess að skuldir lækki um í kringum 130 milljarða króna.

Bloomberg rifjar upp að verðtryggðir skuldir heimila landsins hafi rokið upp þegar verðbólga fór á skrið í efnahagshruninu. Bent er á að í lok júní á þessu ári hafi skuldirnar numið 1.100 milljörðum króna.

Fjallar er ítarlega um aðgerðir ríkissstjórnar í Viðskiptablaðinu sem kom út í dag. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum tölublöð .