Skuldir ríkisins jafngilda því að hver einstaklingur á aldrinum 15 til 25 ára skuldi 21 milljón króna, samkvæmt útreikningum Heiðars Más Guðjónssonar fjárfestis. Hann skrifar grein í Fréttablaðinu í dag þar sem hann bendir á að þessi greiðslubyrði hins opinbera sem ungt fólk verði að bera í gegnum skatta bætist við þá erfiðleika sem felast í því að koma sér upp heimili með kaupum á fasteign. Heiðar segir skuldirnar arfleifð sem eldri kynslóðir skilji eftir sig og þurfi þjóðargjaldþrot til að semja um þær við kröfuhafa.

„Unga fólkið er því að borga af tveimur húsum, ef svo má segja, þegar það flytur að heiman og fer að afla tekna. En annað húsið fær það aldrei að sjá eða koma í. Í Evrópu og eldri samfélögum er ungt fólk farið að flytja annað, frekar en að taka á sig skuldabyrði eldri kynslóða,“ skrifar hann og bendir á að íslenska ríkið sé mjög skuldsett, skuldir þess nemi um 2.100 milljörðum króna.

Heiðar heldur áfram:

„Mikið af þessum skuldum komu til við að greiða fyrir þjónustu og framkvæmdir sem ekkert nýtast komandi kynslóðum. Það má því segja að um sé að ræða skuldir sem eldri kynslóðir tóku, á kostnað hinna yngri. Skuldir ríkisins hverfa ekki, og ríki geta ekki farið á hausinn, heldur þarf við þjóðargjaldþrot að endursemja við kröfuhafa. Þannig voru skuldir Sovétríkjanna, eftir hrun þeirra, losaðar af Eystrasaltsríkjunum, Georgíu og Aserbaídsjan og Rússland tók þær yfir, eftir að endursamið hafði verið um fjárhæð og afborganir við lánardrottna. Enn eru útistandandi skuldir Napóleons sem franska ríkið þarf að greiða af.“