Skuldir íslenska ríkisins munu aukast mikið nú í bankakreppunni. Reikna má með því að heildarskuldir munu aukast um 420 milljarða króna í ár af þessum sökum og verða 1.083 milljarðar í lok árs.

Þetta kemur fram í Morgunkorni Íslandsbanka í morgun en þar kemur einnig fram að kostnaði vegna bankahrunsins er mætt með innlendri lántöku en eignir koma að hluta á móti í nýju bönkunum.

Þá vitnar Greining Íslandsbanka í Mark Flanagan, sem fer fyrir sendinefnd Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á Íslandi, en hann sagði í síðustu viku að engar líkur væri á greiðslufalli íslenska ríkisins á erlendum eða innlendum skuldum þess.

Þá benti Flanagan á að þrátt fyrir að  skuldir hins opinbera verði miklar sé eignahliðin talsvert myndarleg á móti, og því sé hrein staða hins opinbera mun hagfelldari en ætla mætti við fyrstu sýn.

Talsverð óvissa er um verðmæti þessara eigna en samkvæmt mati fjármálaráðuneytisins ættu eignir ríkissjóðs að vera um 928 milljarðar króna í lok þessa árs og því til viðbótar koma eignir á móti innlánsábyrgð í Icesave upp á 527 milljarðar króna og eign í gjaldeyrisvarasjóði Seðlabankans á móti lántökum frá AGS o.fl.

Sjá nánar Morgunkorn Íslandsbanka.