Einn eiganda Laxa fiskeldis í Reyðar- og Fáskrúðsfirði, Gunnar Steinn Gunnarsson, segir skýrslu Hafrannsóknarstofnunar um hættu á erfðablöndun laxastofna vera heldur hlutdræga. Sjáist það af því að vísað er til Breiðadalsár sem sjálfbærrar laxveiðiár í sérstakri hættu á einum stað í skýrslunni meðan hún sé á öðrum stað á lista yfir hafbeitarár að því er hann segir í Morgunblaðinu.

Segir hann ána hafa verið þekkta fyrir litla náttúrulega laxagengd öldum saman og vísar í bæði skýrslu landshöfðingja frá 1898 sem og þeirrar staðreyndar að frá árinu 1967 hafi veiðirétthafar í ánni sleppt allt að 200 þúsund laxaseiðum í ána ár hvert.

Með Skýrslunni sem ber yfirskriftina „Áhættumat vegna mögulegrar erfðablöndunar milli eldislaxa og náttúrulegra laxastofna á íslandi,“ sem Fiskifréttir hafa meðal annars fjallað um, sé burðargeta Reyðarfjarðar fært niður í 9.000 tonn úr 20.000 tonn vegna hættu á erfðamengun.

Félag Gunnars Steins, Laxa fiskeldi hefur stefnt á 24 þúsund tonna laxeldi í Reyðarfirði og Fáskrúðsfyrði en nú veltir hann fyrir sér hvort það sé verið að vega að þeim áætlunum með þessari skýrslu. „Ég á mjög erfitt með að skilja þetta,“ segir Gunnar Steinn. „Rök Hafró eru allt annað en vísindaleg, skýrslan er búin til úr heimalöguðu módeli og er heldur hlutdræg.“