„Við erum búin að bíða eftir því að fá að sjá þessa skýrslu í tvö ár. Okkur ofbýður framganga stjórnarmanna og starfsmanna sjóðsins,“ segir Hjálmar Styrkársson, stjórnarmaður í Samtökum stofnfjáreigenda Sparisjóðsins í Keflavík (SpKef). Netmiðillinn Kjarninn fjallar um málefni sparisjóðsins og skýrslu sem endurskoðendafyrirtækið PwC vann um starfsemi hans fyrir Fjármálaeftirlitið. Kjarninn segir embætti sérstaks saksóknara hafa haft skýrslu PwC undir höndum síðan í fyrra og komi hún inn á nokkur mál sem embættið hefur haft til meðferðar.

„Við vissum að skýrsla PwC væri svört en okkur óraði ekki fyrir því að lestur hennar yrði svona óhugnanlegur,“ segir Hjálmar og bendir á að himinháar greiðslur í séreignasjóð lykilstarfsmanna sem fjallað er um í skýrslunni sé utan við öll velsæmismörk.

Hann segir jafnframt það hryggilegt hvernig þeir sem stýrðu sjóðnum brugðust trausti þeirra sem héldu að um sómafyrirtæki væri að ræða og lögðu fjármuni í hann í stofnfjáraukningu SpKef árið 2007 þegar Sparisjóður Húnaþings og Stranda og Sparisjóður Vestfirðinga sameinuðust undir merkjum Sparisjóðsins í Keflavík.