„Það virðist vera vandi slitastjórna að samræma vilja mörg þúsund kröfuhafa,“ segir Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra. Hann bendir á að í umræðum um viðræður stjórnvalda við kröfuhafa og afnám gjaldeyrishafta reyni á raunsæi innan slitastjórna.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra sagði í samtali við Bloomberg-fréttastofuna að ríkisstjórnin eigi ekki að reyna að miðla málum í viðræðum við kröfuhafa. Þarna eigi sér stað viðræður einkaaðila um einkaskuldir. Ríkið eigi ekki að koma þar að máli nema í þrautir reki.

Guðmundur Steingrímsson, formaður Bjartrar framtíðar, vakti athygli á viðtalinu við Sigmund í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag. Þar sagðist hann vera orðinn svolítið ringlaður í umræðum um málið. Eina stundina tali forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar um að skattleggja þrotabúin og grípa til annarra aðgerða. Það væri stjórnvaldsaðgerð. Hina segi forsvarsmenn stjórnarflokkanna að ríkisstjórnin eigi ekki að skipta sér af viðræðum kröfuhafa föllnu bankanna, slitastjórna og Seðlabankans. Guðmundur sagði nálgun þeirra Sigmundar og Bjarna ekki rétta: „Viðræður þurfa að fara fram. Það eru tíðindi að formenn stjórnarflokkanna telja það ekki hlutverk sitt að fara í slíkar viðræður,“ sagði hann.

Bjarni svaraði því á móti ekki þurfa að eiga sér samningaviðræður við stjórnvöld á meðan þeir sem eiga að ná nauðasamningi ná ekki árangri. Unnið sé að því hörfðum höndum að vinna að lausn mála, sérstaklega afnámi gjaldeyrishafta og annarra mála vegna endurfjármögnunarþarfar hagkerfisins. „Það er unnið hörðum höndum að því hvernig hægt er að fara á næsta stað í þessu ferli,“ sagði hann.