„Það bendir ekki til þess að menn hafi trú á eigin málstað þegar gripið er til þess ráðs að útmála þá sem menn eru ósammála,“ að mati Björns Bjarnasonar, fyrrverandi þingmanns og ráðherra Sjálfstæðisflokksins.

Björn skrifaði í gærkvöldi stutta færslum um skýrslu Hagstofnunar Háskóla Íslands um aðildarviðræður stjórnvalda við Evrópusambandið og fleira því tengt á vef sínum Björn.is . Hann sorglegt að fylgjast með því hvernig ESB-viðræðu- eða aðildarsinnar telji sér sæma að orða hugsanir sínar þegar þeir taki til við að bíta frá sér á opinberum vettvangi.

Segir viðræðunum hafa verið sjálfhætt

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir Menntamálaráðherra
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir Menntamálaráðherra
© Haraldur Jónasson (VB MYND/HARI)

Tilefni skrifa Björns voru þau ummæli Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, fyrrverandi þingmanns og  ráðherra Sjálfstæðisflokksins, sem féllu þegar hún var gestur í þætti Gísla Marteins Baldurssonar Sunnudagsmorgunn fyrir hádegi í gær. Þar gagnrýndi Þorgerður harðlega vinnubrögð ríkisstjórnarinnar í tengslum við fyrirhuguð viðræðuslit við Evrópusambandið og viðurkenndi að hún hefði áhyggjur af því að gjá væri að myndast á milli íhaldssamra og frjálslyndra afla innan Sjálfstæðisflokksins. „Stór hluti af okkur segir við viljum ekki leyfa harðlínunni að taka yfir. Við viljum ekki að svartstakkarnir í flokknum eigi hann frekar en ég og þú,“ sagði hún.

Björn skrifar:

„Þegar við Friðrik Sophusson beittum okkur fyrir sátt um málið á landsfundinum árið 2011 var Þorgerður Katrín ósátt við niðurstöðuna og hún hefur líklega orðið enn ósáttari eftir síðasta landsfund á árinu 2013. Eitt er að verða undir á fundi sem á annað þúsund manns sækja annað að  hallmæla þeim sem menn eru ósammála með skammaryrðum. Það bendir ekki til þess að menn hafi trú á eigin málstað þegar gripið er til þess ráðs að útmála þá sem menn eru ósammála á þann veg sem heyra mátti í sjónvarpsfréttunum. [...] ESB-málið snýst ekki um Sjálfstæðisflokkinn heldur þá staðreynd að ESB-viðræðunum var siglt í strand í tíð ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur og á alþingi er ekki meirihluti fyrir því að hrinda þeim af stað aftur,“ skrifar Björn og klikkar út með að höfundur þess hluta skýrslu Hagfræðistofnunar sem snýr að aðildarferlinu kemst að þeirri niðurstöðu að viðræðunum sé „sjálfhætt“.