© Aðsend mynd (AÐSEND)

„Skýrslan staðfestir það sem fram kemur í bók minni. Í fyrsta lagi staðfestir hún að yfirvöld viku frá faglegum vinnubrögðum til að knésetja SPRON. Í öðru lagi staðfestir hún að ráðamenn sögðu ósatt þegar þeir reyndu að réttlæta yfirtöku SPRON,“ að sögn Árna H. Kristjánssonar sagnfræðings. Hann skrifaði bók um sögu Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis sem kom út rétt fyrir síðustu jól. Bókin heitir Hugsjónir, fjármál og pólitík. Í bókinni segir Árni margt benda til þess að komast hefði mátt hjá falli Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis (SPRON) á vordögum 2009 þegar Fjármálaráðuneytið tók yfir rekstur hans. Í stað þess að koma honum til hjálpar beitti ríkisvaldið handaflsaðgerð til að knésetja sparisjóðinn.

Árni hefur haldið því fram allt frá því bókin kom út að ráðamenn á þeim tíma þegar Spron féll hafi farið með rangt mál. Hann og Gylfi Magnússon, sem var viðskiptaráðherra þegar Spron var tekinn yfir, deildu um örlög sparisjóðsins á vb.is í byrjun árs. Gylfi vísaði fullyrðingum Árna á bug og sagði hann fara með rangt mál.

Segir Spron hafa verið fórnað

Árni segir sparisjóðaskýrsluna sem kom út í síðustu viku staðfesta að Steingrímur J. Sigfússon, sem þá var fjármálaráðherra, og Svein Harald Øygard seðlabankastjórisögðu ósatt um bága stöðu Spron, s.s. þegar þeir fullyrtu að eigið fé Spron hefði verið uppurið fyrir páska 2008.

Árni tekur sérstaklega fram að í minnisblaði frá 4. mars 2009 sem var sent Tryggva Pálssyni, framkvæmdastjóra fjármálasviðs Seðlabankans, hafi verið tekin ákvörðun um að fórna Spron. Í niðurlagði blaðsins þar sem fjallað var um endurgreiðslubyrði fram til 2014 komi fram að gjaldþrot Sparisjóðabankans og Spron myndu létta endurgreiðslubyrði hagkerfisins verulega. Þá hafi það verið tilvalið í ljósi þess að erfiðlega gekk að finna fjármögnun fyrir nýju bankana að nota innlán Spron til að fjármagna Nýja Kaupþing.