Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis (Spron) fór illa út af sporinu síðustu árin fyrir hrun. Honum var m.a. breytt í smækkaða útgáfu af stóru bönkunum, látinn vaxa hratt og taka ævintýrilega áhættu. Afleiðingarnar urðu þær að bókfært tap sparisjóðsins nam 68 milljörðum króna árið 2008 og var eigið fé hans neikvætt um 42 milljarða. Þetta jafngildir því að Spron hafi tapað sem nemur 1,3 milljörðum króna á viku síðasta heila starfsárið sitt, að mati Gylfa Magnússonar, dósents við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands.

Reynt að kenna öðrum um

Gylfi var viðskiptaráðherra vorið 2009 þegar Fjármálaeftirlitið (FME) greip inn í rekstur Spron í mars 2009 og skipaði skilanefnd yfir rekstri hans. Í nýrri bók um sögu Spron er fullyrt að margt bendi til að stjórnvöld hafi í veigamiklum atriðum vikið frá faglegum vinnubrögðum til að knésetja sparisjóðinn. Þeir Gylfi og Árni H. Kristjánsson, höfundur bókarinnar, deildu um málið á VB.is um helgina. Gylfi sagði m.a. bókarhöfund fara með rangt mál sem snerti síðustu daga Spron. Hann fullyrti að bókin væri tilraun fyrrverandi stjórnenda Spron til að endurskrifa söguna og kenna öðrum en þeim sjálfum  um að FME tók hann yfir. Tilraunina segir Gylfi ekki pappírsins virði. Grípa hafi þurft inn í rekstur sparisjóðsins. Nokkurra daga frestur hefði engu breytt.

Gylfi segir nú að stjórnendur Spron hafi eftir hrunið 2008 fengið frest til að leysa úr lausa- og eiginfjárvanda sínum. Þær hafi engum árangri skilað. Í mars 2009 hafi laust fé sparisjóðsins í krónum verið nánast uppurið, hann hafi m.a. fengið að ganga á yfirdráttarheimild í stórgreiðslukerfi og ekki uppfyllt kröfur um bindiskyldu svo mánuðum saman.

Kreistu milljónir úr flaki sparisjóðsins til söguritunar

SPRON
SPRON
© Haraldur Guðjónsson (VB MYND/hag)

„Síðustu stjórnendur Spron bera ábyrgð á því tjóni og einnig þeim áföllum sem viðskiptavinir og starfsmenn sjóðsins urðu fyrir vegna þessarar sögu allrar. Svo að ekki sé minnst á tjón þeirra sem keyptu hlutabréf í sjóðnum á uppsprengdu verði. Það er með ólíkindum að þessir sömu stjórnendur skuli nú freistast til að varpa ábyrgðinni af öllu þessu yfir á aðra, sem komu þó sannanlega hvergi nærri rekstri Spron, með útgáfu bókar sem á að endurskrifa söguna. Það er líklega táknrænt að tilraunina greiða þeir ekki úr eigin vasa. Hún er kostuð af síðustu milljónunum sem tókst að kreista út úr flaki sparisjóðsins, fé sem átti að renna til eflingar á íslenskri lista- og menningarstarfsemi og styðja heilbrigðis- og líknarmál. Það heitir víst að bíta höfuðið af skömminni,“ skrifar hann.

Gylfi hefur brugðist við orðum höfundar bókar um sögu Spron. Hann vonar að það verði lokaorðin. Hér að neðan er bréf Gylfa:

Að bíta höfuðið af skömminni

Vegna afar sérkennilegra ummæla Árna H. Kristjánssonar sagnfræðings um fall SPRON, m.a. margvíslegra samsæriskenninga, vill undirritaður taka eftirfarandi fram.

Allar helstu staðreyndir um fall SPRON í mars 2009 hafa nú legið fyrir í nær fimm ár. Þessi gamalgróni sparisjóður fór illa út af sporinu síðustu árin fyrir hrun, eins og raunar flestar aðrar íslenskar fjármálastofnanir. Hefðbundnum sparisjóði sem hafði einkum þjónustað einstaklinga og smærri fyrirtæki var breytt í smækkaða útgáfu af stóru bönkunum.

SPRON var látinn vaxa hratt og taka ævintýralega áhættu í fjárfestingum líkt og bankarnir. Jafnframt var farið í miklar æfingar til að breyta eigin fé sjóðsins og gera sem mest af því að eign stofnfjárhafa. Síðan var sjóðnum breytt í hlutafélag til að losna við allar hömlur sem fylgt höfðu stofnfjárfyrirkomulaginu. Stefnt var að ofsagróða, félagið skráð í kauphöll og kynnt verðmat á hlutabréfunum sem var svo bjartsýnt að athygli vakti. Voru menn þó ýmsu vanir á bóluárunum.

Þetta endaði með ósköpum. Sumarið 2008, þ.e. fyrir hrun bankanna, var sjóðurinn ekki lengur rekstrarhæfur. Átti að bjarga honum með því að sameina hann Kaupþingi.

Það leikur enginn vafi á því hverjir bera ábyrgð umfram aðra á þessari sögu allri. Það gera þeir sem stjórnuðu sjóðnum síðustu árin. Sagnfræðirannsóknir sem eiga að leiða annað í ljós eru ekki pappírsins virði. Það er annað mál að vitaskuld brugðust fleiri en stjórnendur þessa fjármálafyrirtækis og margra annarra á bóluárunum. Það gerðu einnig eftirlitsstofnanir, stjórnmálamenn, matsfyrirtæki og margir fleiri.

Ekkert varð af yfirtöku Kaupþings á SPRON vegna falls Kaupþings en slæm staða SPRON versnaði til muna við hrun bankanna. Bókfært tap ársins 2008 var 68 milljarðar króna og eigið fé neikvætt um 42 milljarða króna í árslok. SPRON tapaði því að jafnaði 1,3 milljörðum króna á viku síðasta heila starfsár sitt.

Fékk SPRON eftir hrun frest til að leysa brýnan lausa- og eiginfjárvanda en tilraunir til þess skiluðu engum árangri. Sífellt þurfti að framlengja fresti. Í mars 2009 var laust fé í krónum nánast uppurið en auk þess átti sjóðurinn í verulegum vandræðum með gjaldeyri. Hafði sjóðurinn þó m.a. fengið að ganga á yfirdráttarheimild í stórgreiðslukerfi og hafði ekki mánuðum saman uppfyllt kröfur um bindiskyldu. Þann 12. mars 2009 fékk SPRON frest frá Fjármálaeftirlitinu til 18. mars til að koma með lausnir á lausafjár- og eiginfjárvanda. Það tókst ekki. Stjórnendum tókst ekki að leggja fram neinar tillögur að lausnum sem voru raunhæfar að mati sérfræðinga Seðlabanka og Fjármálaeftirlits. Því fór raunar fjarri.

Þann 20. mars lýsti Seðlabankinn því yfir að sparisjóðurinn ætti engin verðbréf sem hæf væru sem veð fyrir lánum í Seðlabankanum og engar forsendur væru fyrir lánveitingum bankans til SPRON. Þegar sú niðurstaða lá fyrir var endanlega ljóst að sjóðnum yrði ekki bjargað. Laust fé hans var uppurið.

Daginn sem SPRON féll, laugardaginn 21. mars, átti sjóðurinn að mati stjórnenda hans einungis 591 milljón króna í lausu fé. Sú upphæð hefði auðveldlega getað runnið út á broti úr degi í fjármálafyrirtæki af þessari stærð. Jafnframt lá fyrir að næstu viku átti sjóðurinn að greiða nær allt þetta fé eða 563 milljónir króna. Hefði SPRON ekki verið lokað 21. mars hefði hann því í síðasta lagi fallið í vikunni þar á eftir og þá líklega á miðjum degi, sem var talsvert verri kostur fyrir alla en að hætta starfsemi um helgi.

Allar þessar staðreyndir voru gerðar opinberar árið 2009 og hafa því legið fyrir síðan. Í mars 2009 var hins vegar ekki vitað með vissu hve illa leikið lánasafn SPRON var. Einhverjar vonir stóðu til þess lánasöfn sparisjóðanna væru aðeins skárri en föllnu bankanna, vegna þess að sparisjóðirnir hefðu verið með meiri áherslu á lán til einstaklinga og smærri fyrirtækja sem fóru skár út úr hruninu en eignarhaldsfélögin sem bankarnir töpuðu mestu á. Þrátt fyrir þetta var ljóst á þessum tíma að einnig þyrfti að afskrifa talsvert af útlánum sparisjóðanna.

Nú, fimm árum síðar, vitum við fyrir víst að þetta var því miður rétt. Eignir SPRON dugðu fyrir innstæðum og öðrum forgangskröfum en lítið verður eftir fyrir aðra kröfuhafa.

Síðustu stjórnendur SPRON bera ábyrgð á því tjóni og einnig þeim áföllum sem viðskiptavinir og starfsmenn sjóðsins urðu fyrir vegna þessarar sögu allrar. Svo að ekki sé minnst á tjón þeirra sem keyptu hlutabréf í sjóðnum á uppsprengdu verði. Það er með ólíkindum að þessir sömu stjórnendur skuli nú freistast til að varpa ábyrgðinni af öllu þessu yfir á aðra, sem komu þó sannanlega hvergi nærri rekstri SPRON, með útgáfu bókar sem á að endurskrifa söguna.

Það er líklega táknrænt að tilraunina greiða þeir ekki úr eigin vasa. Hún er kostuð af síðustu milljónunum sem tókst að kreista út úr flaki sparisjóðsins, fé sem átti að renna til eflingar á íslenskri lista- og menningarstarfsemi og styðja heilbrigðis- og líknarmál. Það heitir víst að bíta höfuðið af skömminni.

Gylfi Magnússon.