Formaður Verkalýðsfélags Akraness (VLFA), Vilhjálmur Birgisson, telur starfsmenn álfyrirtækja eiga að njóta góðs af háu heimsmarkaðsverði á áli. Á heimasíðu félagsins er bent á að álverð hefur hækkað um rúm 80% frá því gengið var frá síðasta kjarasamningi við Norðurál en á sama tímabili hafa laun hjá fyrirtækinu hækkað um 43,9%.

Formaður Verkalýðsfélags Akraness telur að gera eigi þá kröfu að þau stóriðjufyrirtæki sem fá hér ódýra raforku, land og þann mannauð sem við búum yfir, greiði sem hæst laun, að því er kemur fram á heimasíðu VLFA.

„Það er mat formanns Verkalýðsfélags Akraness að þegar verið er að ákveða hvaða stóriðjufyrirtæki fái orku hér á landi þá eigi að vega og meta hvaða fyrirtæki eru tilbúin að greiða hvað hæstu launin og það fyrirtæki sem greiðir hæstu launin á að fá forgang að raforku hér á landi,“ segir á heimasíðu VLFA.

Einnig er bent á að munur er á launum hjá Alcan og hjá Norðuráli og verður það skýlaus krafa í næstu samningum að þeim mun verði eytt.