„Þetta hefur fengið mikinn meðbyr alveg frá því að við byrjuðum. Og nú þegar starfsmenn eru búnir að fara á námskeið í samkeppnislögum þá skilja þeir mikið betur hvað þeir mega gera og hvað þeir mega alls ekki gera,“ segir Sævar Freyr Þráinsson, forstjóri Símans.

Fram kom í Viðskiptablaðinu í vikunni að allt starfsfólk Símans mun fara í próf í samkeppnisrétti á næstu vikum. Þetta er liður í samkeppnisréttaráætlun fyrirtækisins. Hjá Símanum vinna yfir 500 manns. Síminn gerði í fyrra sátt við Samkeppniseftirlitið sem tengdist uppgjöri á málum allt aftur til ársins 2001 en Síminn hefur undanfarin ár þurft að greiða hundruð milljóna króna í sektir vegna brota á samkeppnislögum.

„Ég er búinn að kynna þetta á starfsmannafundi og vonast til að við náum að klára þetta í þessum mánuði. Það er verið að semja prófspurningarnar og undirbúa prófið. Samkeppnisréttaráætlunin er nú orðin hluti af áhættustýringu fyrirtækisins og við munum halda svona próf reglulega,“ segir Sævar.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér .