Ekki var gerð tilraun til að birta stefnu slitastjórnar Landsbankans gegn Sigurjóni Þ. Árnasyni, fyrrverandi bankastjóra Landsbankans, fyrir lögmanni hans, Sigurði G. Guðjónssyni. Þetta segir Sigurður í samtali við vb.is. „Ég ef oft tekið við stefnum á hendur Sigurjóni og tók t.d. við stefnu frá slitastjórninni daginn áður en þessi stefna á að hafa verið birt. Þeir eiga því að vita að þessi leið er fær, en hún var ekki farin í þetta skiptið.“

Í málinu er Sigurjóni stefnt ásamt Steinþóri Gunnarssyni og Yngva Erni Kristinssyni til að greiða þrotabúi Landsbankans 1,2 milljarða vegna kaupa bankans á bréfum í bankanum sjálfum, Eimskipum og Straumi frá nóvember 2007 og fram í júlí 2008. Málið verður þingfest á morgun.

Eins og greint hefur verið frá heldur Sigurjón því fram í greinargerð sinni að krafa slitastjórnarinnar sé fyrnd, þar sem stefnan hafi ekki verið birt honum með réttum hætti áður en fyrningarfrestur rann út. Sigurjón gerir þá kröfu að málinu verði vísað frá. Samkvæmt greinargerðinni var stefnan sögð hafa verið birt á heimili Sigurjóns 5. október 2012 fyrir manni að nafni Gunnar Birkisson, sem sagður er hafa verið viðstaddur þar.

Gunnar er sjálfur stefnuvottur. Sigurður segist telja að þar hafi stefnuvottur sá er átti að afhenda Sigurjóni stefnuna notað gamalt ráð sem felst í því að taka með sér annan stefnuvott á heimili hins stefnda og birta honum stefnuna.

Í 85. grein einkamálalaga er að finna reglur um stefnubirtinu. Þar segir að sé ekki hægt að birta stefnu fyrir hinum stefnda sjálfum, heimilismanni hans eða öðrum sem dvelst á heimilinu megi birta fyrir „þeim sem þar hittist fyrir“.

Sigurður segir að þessi regla sé hugsuð þannig að hægt sé að birta fyrir nágranna eða t.d. manni sem er að vinna í garði hins stefnda. „Það ætti ekki að vera fullnægjandi að birta stefnuna fyrir einhverjum sem þú tekur með þér í bílnum. Og svo ber sá sem tekur við stefnunni þá skyldu að koma henni til hins stefnda, en við fáum ekki séð að gerð hafi verið tilraun til þess í þessu tilviki,“ segir Sigurður.

Deiluefni af þessu tagi hafa ekki oft komið til kasta dómstóla. Þó er til dómur frá fjórða áratugnum þar sem skilyrði laga voru talin uppfyllt þegar stefnuvottur fór á næsta bæ og fékk bóndann þar til að koma með sér að bæ hins stefnda og birti honum stefnuna þar. Hins vegar er til dómur frá níunda áratugnum þar sem ekki var talið nægilegt að birta stefnu fyrir bæjarstjóra í heimabæ hins stefnda.

„Ég vil ekki tjá mig um þetta,“ sagði Gunnar þegar vb.is leitaði viðbragða hjá honum.