Guðlaugur Þ. Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir fjármálaráðherra vera lepp Byrs. Ríkið á 5% hlut í sparisjóðnum og hýsir 94% hlut uns hentugur kaupandi að honum finnst. Fyrir vikið er fjármálaráðherra leppur sjóðsins að sögn Guðlaugs sem segir þetta fyrirkomulag ekki standast skoðun.

Rúv greinir frá þessu og hefur eftir Rósu Björk Brynjólfsdóttur, upplýsingafulltrúa fjármálaráðuneytisins, að með þessu sé verið að ásaka ráðherrann um lögbrot sem sé út í hött. FME hafi víðtækar heimildir til þess að ráðstafa eignum bankanna, á grundvelli neyðarlaganna, og áðurnefnt fyrirkomulag sé háð samþykki FME.

Guðlaugur Þór segir lagagrundvöllinn ekki til staðar og segir það hæpið að vísa til neyðarlaganna til rökstuðnings svo löngu eftir að þau voru sett. Hann spyr hví Bankasýsla ríkisins hýsi ekki hlutinn.