Fylgishrun Samfylkingarinnar í skoðanakönnunum ætti ekki að koma á óvart. Þvert á móti er það fullkomlega rökrétt. Það er arfleið sem Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra skilar af sér til Árna Páls Árnasonar, nýs formanns flokksins. Stjórnunarstíll Jóhönnu hefur einkennst af reiði, illsku og hefndarhug á sama tíma og brýnast hefur verið að ná sáttum, að sögn Helga Magnússonar, fyrrverandi formanns Samtaka iðnaðarins og formanns stjórnar Lifeyrissjóðs verslunarmanna.

Samfylkingin mælist með 16% fylgi samkvæmt Þjóðarpúlsi Gallup og nær 12% samkvæmt könnun Fréttablaðsins og Stöðvar 2 sem greint var frá fyrir helgi. Til samanburðar hlaut flokkurinn 29,8% í síðustu þingkosningum árið 2009.

Jóhanna sveik kjarasamninga

Helgi Magnússon
Helgi Magnússon
© Aðsend mynd (AÐSEND)

„Jóhanna hefur ekki haft aðra sýn í stjórnmálum á þessum lokametrum sínum en að efna til ófriðar og átaka við allt og alla,“ skrifar Helgi í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag. Helgi tínir til nokkur mál sem skýra fylgishrun flokksins:

„Undir hennar forystu var efnt til fyrstu pólitísku réttarhaldanna á Íslandi sem reyndust hin mesta sneypuför, hamlað var gegn atvinnuuppbyggingu, efnt til átaka við grunnatvinnugreinar eins og sjávarútveginn og aðilar vinnumarkaðarins hafa þurft að upplifa ítrekuð svik við gerða kjarasamninga sem er ný reynsla í samskiptum ríkisstjórna og aðila vinnumarkaðarins.“

Helgi segir kjör Árna Páls dóm yfir fráfarandi forystu Samfylkingarinnar:

„Kveðinn er upp dómur yfir stefnu og vinnubrögðum fráfarandi forystu, þeirrar sömu og ýtti Árna Páli út úr ríkisstjórn fyrir rúmu ári vegna þess að hann sætti sig ekki við þau átök og illsku sem ráðið hafa för. Hann vildi horfa fram á veginn og byggja upp á meðan Jóhanna valdi að horfa til baka og koma fram hefndum. Flokksmenn eiga hrós skilið fyrir að hafna hefndarstefnu Jóhönnu Sigurðardóttur og kalla eftir nýjum viðhorfum sátta, samstarfs og uppbyggingar.“