Már Guðmundsson seðlabankastjóri er ekki nóg handgenginn ríkisstjórninni og vilja bæði Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur vilja komast að stýrinu í bankanum til að ráða því í hvaða höndum kröfur föllnu bankanna sem Seðlabankinn ræður yfir lendir. Svo fullyrðir Helgi Magnússon, fyrrverandi formaður stjórnar Samtaka iðnaðarins og fyrrverandi formaður stjórnar Lífeyrissjóðs verslunarmanna. Helgi telur helmingaskiptamóralinn svokallaða enn í fullu gildi og fullyrðir að stjórnarflokkarnir vilji tryggja að flokksmenn geti tryggt sér eignarhald á Arion banka og Íslandsbanka fyrir lágt verð.

Kjarninn birtir í dag brot úr bréfi sem Helgi sendi ýmsum áhrifamönnum í viðskiptalífinu um málið. Þar á meðal eru stjórnarmenn í lífeyrissjóðum og fjárfestar. Umfjöllunarefni tölvupóstsins eru vangaveltur Helga um ástæðu þess hvers vegna Morgunblaðið hafi verið upptekið af því að fjalla um Má og launamál hans gegn Seðlabankanum. Hann segir að undirliggjandi séu nokkrar ástæður sem séu frekar „subbulegar“ en skýra ástæðu þess að ákveðið var að gera breytingar á Seðlabankanum og auglýsa stöðu seðlabankastjóra lausa til umsóknar.

Á meðal þess sem Helgi telur til í tölvupóstinum eru:

  • Sálartetur fyrrum bankastjóra Seðlabankans er ennþá skaddað eftir að hann var rekinn af fyrri ríkisstjórn eftir að hafa haft forystu um að gera bankann gjaldþrota upp á 300 milljarða króna. Um það gjaldþrot hefur lítið verið fjallað í Mbl., og alls ekki hefur þótt taka því að leggja forsíður undir slíka smámuni. Því þarf að beina athygli að öðrum vandræðalegum málum hjá bankanum.

  • Núverandi bankastjóri er ekki nógu handgenginn ríkisstjórninni og því þarf aðtryggja að hann geti ekki sótt um. Klúðrið kringum málið er þannig að löngu ætti að vera ljóst að hann sækir ekki um. [...] Gengið verður frá ráðningu tveggja þjálla manna sem annar kemur frá Framsókn og hinn frá D.

  • Það sem einnig veldur því að blaðið gengur af göflunum er að helsti eigandi þess, Samherji, á í miklum deilum við gjaldeyriseftirlit Seðlabankans sem fór í gríðarstóra rannsókn á gjaldeyrissvindli Samherjasamstæðunnar en það mál er nú hjá Sérstökum saksóknara. Verði ákært í því máli og nái saksóknari fram með málatilbúnað sinn, er hætt við að „fínir menn“ bætist við langan lista þeirra sem fá „frítt fæði og húsnæði“ hjá ríkinu á næstu missirum og árum. Það vekur ekki kátínu og veldur því að það þarf að hefna sín grimmilega á Má sem að sjálfsögðu kemur mjög við sögu í þessari rannsókn.

  • Spillt hugsun Framsóknar og Sjálfstæðismanna, sem mjög hefur verið gagnrýnd og er talin hluti af orsökum hrunsins árið 2008, er enn til staðar. Helmingaskiptamórallinn er enn í fullu gildi. Og þá gegnir Seðlabankinn lykilhlutverki. Hjá bankanum er vistað eignarhaldsfélag sem tekur við ýmsum eignum sem tilheyra uppgjörum eftir hrun vegna þrotabúa og annara mála. Framundan er að þetta eignarhaldsfélag taki við krónueignum úr þrotabúum Kaupþings og Glitnis, m.a. hlutabréfum í Arion og Íslandsbanka. Þá skiptir miklu máli að Framsóknarmenn fái annan bankann á mjög góðu verði og handgengnir sjálfstæðismenn hinn. Við slíkar aðstæður gengur ekki að hafa við stjórnvölinn í Seðlabankanum annað en „strangheiðarlega“ sendisveina flokksins.