Lögmaður Gunnar Andersen, forstjóra Fjármálaeftirlitsins (FME), krefst þess að andmælaréttur Gunnars verði framlengdur, en Gunnar átti að skila andmælum í dag. Stjórn fjármálaeftirlitsins kemur saman í kvöld.

Í bréfi Skúla Bjarnasonar, hrl., lögmanns Gunnars, sem birt hefur verið í fjölmiðlum nú seinnipart dags, kemur fram að Gunnar hafi fyrst borist tilkynning um „löglausa uppsögn sína“ að kvöldi síðastliðins föstudags, 17. febrúar. Honum sé því aðeins gefinn einn virkur dagur til að andmæla.

Þá segir Skúli að uppsögnin varði bæði æru og fjárhagslega afkomu Gunnars.

Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum um helgina telur stjórn FME að Gunnar hafi sem starfsmaður Landsbankans árið 2001 reynt að villa um fyrir stofnuninni í skýrslu um aflandsfélög bankans. Í álitsgerð Ástráðs Haraldssonar, lögmanns og Ásbjörns Björnssonar, endurskoðanda, um hæfi Gunnars til að gegna stöðu forstjóra, segir að í ljósi þess að Gunnar hafi látið hjá líða árið 2001 að upplýsa FME um tvö aflandsfélög Landsbankans vakni efasemdir um hæfi hans.

Í fyrrnefndu bréfi Skúla kemur fram að ekki hafi verið tekið tillit til fyrri andmæla Gunnars sem unnin voru í aðdraganda skýrslu þeirra Ástráðs og Ásbjörns.

Skúli ítrekar í bréfi sínu í dag að enn hafi engin ný gögn verið lögð fram til að styðja uppsögn Gunnars. Þá segir hann stjórnarmenn FME tala í véfréttastíl, og vísar þar sérstaklega til Ingibjargar Þorsteinsdóttur og Arnórs Sighvatssonar, aðstoðarseðlabankastjóra.

Bréf Skúla má finna í heild sinni HÉR .