Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Miðflokksins sagði á Alþingi að það kæmi fram í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar að hún hafi enga stefnu í þróun fjármálakerfisins að því er mbl segir frá.

Sagði hann að áður en ríkisstjórnin ætlaði að móta sér stefnu gætu vogunarsjóðirnir náð fullkomnum tökum á fjármálakerfinu meðan einhverri hvítbók hvítbók um málið væri velt upp um málið.

„Það er óskiljanlegt ef stjórnmálaflokkum hefur ekki tekist að móta sér stefnu á þessu sviði,“ segir Sigmundur Davíð en hann vill meina að ríkisstjórnin vilji ekki stíga inn í tilraunir vogunarsjóða til að leggja undir sig Arion banka. „En á meðan þetta stefnuleysi er ríkjandi er ríkisstjórnin smátt og smátt, og raunar hratt á köflum, að missa tökin á atburðarásinni.“

Vill samningana sem hann var minntur á hafa gert opinbera

Í umræðum á Alþingi í dag spurði hann hvort ríkið hygðist selja 13% hlut ríkisins í Arion banka til vogunarsjóðanna sem og hvort ætlunin væri að afsala sér forkaupsrétti að hlutabréfum í bankanum fyrir skráningu á markað. Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra svaraði fyrirspurninni með því að segja að ekki stæði til að auka við hlut ríkisins í bönkunum.

„Þegar kemur að sölu á hlut ríkisins í Arion banka þá hefur engin ákvörðun verið tekin um hana,“ sagði Katrín sem minnti Sigmund á að hann hefði verið forsætisráðherra þegar stöðugleikasamkomulagið við slitabú föllnu bankanna hefði verið gert.

Sagði Katrín að þá hefði verið tekin ákvörðun um hinn meinta forkaupsrétt en hann virkjast ef söluverð bankans fer niður fyrir 0,8 af hverri krónu af bókfærðu eigin fé bankans að því er Kjarninn greinir frá.

Hins vegar kölluðu þingmenn Miðflokksins eftir gögnum um það hvort ríkið ætti áfram forkaupsrétt í bankanum og fór Sigmundur Davíð fram á það við forseta Alþingis að hann beitti sér fyrir því að samningarnir yrðu gerðir opinberir.