Áform hafa verið um tengingu frá Íslandi við sæstreng Emerald Networks á milli Írlands og Bandaríkjanna, en nú er komin upp mikil óvissa um hvort hugmyndirnar verði að veruleika. Morgunblaðið greinir frá málinu.

Þar kemur fram að Emerald Networks hafi hætt við áformin og nýir aðilar tekið að sér verkefnið. Júlíus Sólnes verkfræðiprófessor, sem aðstoðaði einn stofnenda Emerald Networks við að afla fylgis við streng til Íslands meðal stjórnvalda og fjárfesta, segir í samtali við Morgunblaðið að stjórnvöld séu áhugalaus um verkefnið og því hafi það ekki gengið eftir.

Gísli Hjálmtýsson frá fjárfestingarfélaginu Thule Investments, sem hefur unnið að fjármögnun strengsins til Íslands í þrjú ár, er hins vegar öllu bjartsýnni á að fjármögnunin takist. „Við erum að komast á skrið eftir hrunið og uppbygging hefur átt sér stað í gagnaverum,“ segir hann meðal annars.