Ef stjórnvöld vilja raunverulega að sjávarútvegur leggi meira til samfélagsins þá er það lýðræðisleg skylda þeirra að setjast niður með fulltrúum greinarinnar og fara yfir hvernig greinin getur lagt meira til samfélagsins en nú er gert. Er þetta meðal þess sem Guðmundur Kristjánsson, forstjóri Brims, segir í aðsendri grein í Fréttablaðinu í dag. Hann segir að eins og er hagi stjórnvöld sér eins og krakkakjánar. „Undirritaður átti fund með forsætisráðherra fyrir nokkrum árum og þá vissi hún og hennar ráðgjafar eiginlega ekkert um greinina. Ég efast um að forsætisráðherra eða hennar ráðgjafar hafi farið um borð í íslenskt fiskiskip eða fiskvinnslu síðasta áratuginn. Hvað þá að þau þekki mun á þorski og makríl, okkar helstu nytjategundum í dag. Þetta er ekki boðlegt íslenskri þjóð,“ segir Guðmundur.

Hann segir að frá árinu 1984, þegar kvótakerfinu var komið á, hafi mikil verðmæti orðið til í sjávarútvegi, en engu líkara sé að þessi verðmæti séu þjóðarskömm en ekki þjóðarstolt. „Árið 1984 var offjárfesting í veiðum og vinnslu. Skipin voru of mörg um of lítinn afla. Fiskistofnarnir við Ísland þoldu ekki þessa miklu sókn. Það voru ekki bara vísindamenn sem vildu minnka veiðina, það voru íslenskir útvegsmenn sem fóru í forystu um að minnka veiðina til að fiskistofnar hér við land yrðu ekki ofveiddir eins og þeir voru búnir að sjá gerast hjá nágrannaþjóðum.“

Guðmundur skýtur fleiri en einu föstu skotinu í átt að forsætisráðherra í greininni. „Forsætisráðherra segir í grein að hún og hennar ríkisstjórn ætli að fjölga störfum hér á landi á næstu misserum. Á sama tíma ætlar hún að standa fyrir gríðarlegri eyðileggingu á grunnatvinnuvegi þjóðarinnar og hunsa sjónarmið ólíkra fagaðila sem vara við þessu voðaverki sem frumvarpið er. Hún hæðist að okkur öllum sem störfum við sjávarútveg og gildir einu þó við getum sýnt fram á góðan rekstur. Ég er ekki að tala um útvegsmenn eina, heldur alla sem tengjast greininni, þjónustuaðilar, tæknifólk, bankafólk, íslenskir fræðimenn og fleiri og fleiri.“