Hindranir hins opinbera á beina erlenda fjárfestingu eru tvöfalt meiri hér á landi en að meðaltali í öðru ríkjum sem aðild eiga að Efnahags- og framfarastofnuninni (OECD). En nú stefna stjórnvöld á að leggja enn frekari takmarkanir á fjármagnsflutninga en nú eru í gildi. Þetta fullyrðir Karim Dahou, framkvæmdastjóri skrifstofu fjárfestinga og atvinnulífs hjá OECD.

Dahou var ræðumaður á fundi Samtaka atvinnulífsins (SA) um beina erlenda fjárfestingu sem haldinn var í gær. Á fundinum kom m.a. fram að gjaldeyrishöftin séu skaðleg og dragi úr áhuga erlendra fjárfesta á Íslandi.

Dahou benti m.a. á að almennt væru fjárfestingar erlendra aðila mestar í þeim ríkjum þar sem hagkerfið væri opið og ekki hindranir í vegi alþjóðlegrar starfsemi.

VB Sjónvarp ræddi m.a. við þau Ásdísi Kristjánsdóttur , forstöðumann efnhagssviðs Samtaka atvinnulífsins, og Frank Barry , prófessor í alþjóðaviðskiptum við Trinity háskólann í Dublin, um beina erlenda fjárfestingu og gjaldeyrishöft eftir fund SA.