Staða margra verktakafyrirtækja er afar erfið um þessar mundir en litlar framkvæmdir eru fyrirhugaðar hjá Vegagerðinni sem ekki hefur úr miklum fjármunum að spila vegna niðurskurðar í ríkisfjármálum. Af þeim sex milljörðum króna sem stofnunin hefur til ráðstöfunnar hefur fimm milljörðum þegar verið ráðstafað.

Fram kemur í Morgunblaðinu að aðeins hafi sjö verkefni verið boðin út á árinu og samanlagður kostnaður við þau sé 550 milljónir króna, og er sú upphæð ekki inni í áðurnefndum fimm milljörðum sem lagðir voru í yfirstandandi verkefni.

Undirboð eru tíð í mannvirkjagerð um þessar mundir og hefur Morgunblaðið eftir Árna Jóhannessyni, forstöðumanni mannvirkjasviðs Samtaka iðnaðarins, að staða margra verktaka sé skelfileg. Öll fyrirtæki séu búin að skera verulega niður og eru komin í minnstu mögulegu stærð, sum þeirra séu hætt starfsemi og önnur farin að leita verkefna erlendis.