Umboðsmaður skuldara telur stöðu gengislánamála óásættanlega varðandi endurútreikning fjármálafyrirtækja á slíkum lánum, en samantekt, sem hann gerði að beiðni félags- og húsnæðismálaráðherra var kynnt á ríkisstjórnarfundi í gær. Er fjallað um úttektina á vefsíðu ráðuneytisins í dag.

Umboðsmaður skuldara telur stöðuna í gengislánamálum vera óásættanlega. Þrátt fyrir að lánastofnanir virðist vera að endurreikna ólögmæt gengistryggð lán að svo stöddu þá virðist jafnframt vera enn ákveðin ágreiningsefni til staðar sem á eftir að leysa. „Fjármálafyrirtækin og Drómi hafa dregið lappirnar í þessum málum og hafa sum þeirra jafnframt sett fram ákveðna fyrirvara gagnvart lántakendum er þeir gera endurútreikninga sína. Lántakendur hafa ekki farið varhluta af þessum vinnubrögðum og þurft að leita sér aðstoðar í baráttunni við þau. Ferlið hefur verið langsótt og torsótt en afrakstur samráðs og prófmála valdið vonbrigðum að mati umboðsmanns skuldara,“ segir í tilkynningu ráðuneytisins.

Lagt er til að leitað verði til þeirra stofnana sem hafa til þess heimildir að kalla eftir upplýsingum eða hafa betra aðgengi að upplýsingum. Lagt er til að Fjármálaeftirlitið óski eftir upplýsingum um nákvæma stöðu endurútreikninga gengislána hjá fjármálafyrirtækjum og Dróma og þá eftir atvikum leita skýringa hvað tefji að þessum málum sé lokið gagnvart lántakendum. Lagt er til aðdómstólaráð fari nánar yfir þau mál sem varða gengislán og eru enn á ýmsum stigum hjá dómstólum. að lokum er lagt til að Neytendastofa kanni nánar hvort þeir fyrirvarar sem einstök fjármálafyrirtæki hafa sett við endurútreikninga sína gagnvart lántakendum standist að þeirra mati lög um neytendalán.