Svanur Guðmundsson, formaður Félags löggiltra leigumiðlara, segir rekstrargrundvöll sjálfstæðra leigumiðlara ekki lengur fyrir hendi þar sem verkefni  þeirra hafi verið hverfandi. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag.

Svanur segir kaup Almenna leigufélagsins á 450 íbúðum af Kletti, félags í eigu Íbúðalánasjóðs, valda því að félagið eigi eiginlega ekki möguleika á að starfa lengur. Almenna leigufélagið er í eigu sjóða sem fjármálafyrirtækið GAMMA rekur og er um þessar mundir með 1000 íbúðir á leigumarkaði. Svanur segir jafnframt að sjálfstætt starfandi leigumiðlarar og leigufélög séu nánast hætt starfsemi. Fasteignasölurnar hafi tekið yfir að aðstoða fólk á þessu sviði.

Í viðtalinu vísar hann til þess að minni sjálfstætt starfandi leigumiðlarar hafi ekki átt möguleika á að koma inn í þessu stóru félög lífeyrissjóðanna og almenna leigufélagsins á þessum markaði. Segir hann þessi stóru félög koma til með að stjórna verðinu og auðvitað sé mjög hvetjandi fyrir þá að kaupa íbúðir, þar sem verið sé að stórauka framlag ríkisins til leiguíbúða, sem muni leiða til þess að framlagið komi inní leiguna og hækka hana.