Bandaríski vogunarsjóðsstjórinn Kyle Bass hefur töluverðar efasemdir um að Bandaríkin og Kína muni ná viðskiptasamningi sín á milli. Sagði Bass í viðtali við CNBC í gær að Kína hefði ekki tekist að standa við einn einasta viðskiptasamning sem stjórnvöld þar í landi hafa skrifað undir við Bandaríkin frá því að Kína fékk inngöngu í Alþjóðaviðskiptastofnunina árið 2001.

„Á einhverjum tímapunkti mun einhver af okkar embættismönnum halda að sér höndum auk þess sem þetta er barátta á milli menningarheima þar sem Kommúnistaflokkurinn vill ekki skuldbinda sig við neitt sem er mælanlegt eða eitthvað sem þarfað framfylgja. Að mínu mati tel ég að samningar munu ekki nást,“ sagði Bass. Bandarískir og kínverskir samningamenn munu hittast í næstu viku eftir að samningaviðræður í maí skiluðu ekki tilætluðum árangri. Hefur Steven Mnuchin, fjármálaráðherra Bandaríkjanna látið hafa eftir sér að það væru mörg málefni sem löndin tvö þyrftu að leysa úr.

Viðskiptastríð Bandaríkjanna og Kína var ekki það eina sem Bass ræddi í viðtalinu. Hann sagði einnig að væntanlegar vaxtalækkanir Seðlabanka Bandaríkjanna muni hafa minni áhrif þar sem það sé áður búið að setja þá niður í núll en peningastefnunefnd bankans mun hittast í næstu viku þar sem er búist við því að stýrivextir verði hækkaðir á nýjan leik.

„Við höfum trú á því að vaxtalækkanir hafi minni og minni áhrif þar sem við höfum áður verið við núll prósenta markið. Ég held að á næsta ári munum við sjá bandaríska hagkerfið veikara. Við gætum séð flatan samdrátt (e. shallow recession), ef það gerist er hætt við að vextir muni lækka niður í núll“

Verði það raunin mælir Bass með að fjárfestar eigi eignir með langan líftíma líkt og löng skuldabréf og fasteignir. „Besta leiðin til að verja fjárfestingar í þannig umhverfi er að kaupa langtíma eignir. sem dæmi viltu eiga íbúðir, þú vilt eiga skrifstofupláss og þú vilt eiga löng skuldabréf.“

Bass er stofnandi og fjárfestingarstjóri vogunarsjóðsins Hayman Capital Management sem hóf starfsemi árið 2006. Sjóðurinn er einna þekktastur fyrir að hafa verið einn af þeim sjóðum sem skortseldu undirmálslán í Bandaríkjunum áður en fasteignamarkaðurinn hrundi árið 2008. Síðan þá hefur sjóðurinn einbeitt sér að alþjóðlegum fjárfestingum meðal annars í Grikklandi, Japan og Kína. Hefur sjóðurinn náð meðalársávöxtun upp á 16,7% á þeim árum sem hann hefur starfað.