Egill Jóhannesson, forstjóri Brimborgar, segir að staðan á bílamarkaðnum hér á landi sé nánast súrealísk um þessar mundir. Í nóvember síðastliðnum minnkaði bílamarkaðurinn um 94% miðað við nóvember fyrir ári.

Í bloggi sínu á heimasíðu Brimborgar segir Egill að það sem af er desember mánuði horfi menn nánast öfundaraugum á nóvember tölurnar því nú hafa aðeins selst 44 bílar skv. tölum frá Umferðarstofu. Það væri 96% samdráttur ef miðað er við allan desember mánuð í fyrra en þá seldust 1078 nýir bílar.

Egill bendir á að í eðli sínu sé bílasala sveiflukend. Toppnum náði bílasalan árið 2005 eftir kröftuga uppsveiflu sem hófst eftir samdráttarárin 2000 - 2002. Árið 2008 er því þriðja árið í röð sem bílasala dregst saman. Samdrátturinn hefur verið mestur þetta ár og hófst af krafti um miðjan mars 2008. Egill telur líklegt að samdrátturinn haldi áfram á næsta ári og þá sérstaklega fyrri part árs 2009.

,,Ef það gengur eftir þá væri um að ræða fjögur samdráttarár í röð. Það væri sérstakt. Því er líklegt að seinnipart árs 2009 og árið 2010 hefjist hófleg uppsveifla með auknum krafti árið 2011 og vaxandi aukningu 2012 og 2013. Þannig, að þegar allt kemur til alls, þá er þetta ekki svo ólíkt fyrri niðursveiflum. Aðeins ýktari," segir Egill.