Gylfi Arnbjörnsson segir styttingu tímabils sem hægt er að þiggja atvinnuleysisbætur vera mjög slæma hugmynd. Jafnframt sé ríkisstjórnin að setja met í samskiptaleysi að hafa ekki framkvæmt aðgerðina í samstarfi við ASÍ. Þetta kemur fram á fréttavef RÚV.

Samkvæmt tillögum fjármálaráðherra í fjárlagafrumvarpi og bandormi mun lengsta leyfilega tímabil atvinnuleysisbóta lækka úr þremur árum í tvö og hálft ár. Bótatímabil er að jafnaði eitt til tvö ár á hinum Norðurlöndunum.

nýbreytni í samskiptaleysi

„Okkur finnst þetta alveg mjög slæm tillaga og reyndar er það þannig að frá því að Alþýðusambandið samdi um atvinnuleysisbótakerfið 1956 þá hefur það aldrei gerst að ráðherra hafi sett fram jafnmikla skerðingu á bótarétti án þess hafa a.m.k. reynt að ræða um það við okkur áður. Þetta er mikil nýbreytni í samskiptaleysi. Og gagnvart þessu fólki sem er langtímaatvinnulaust þá er þetta algjörlega galin aðgerð,“ segir Gylfi í samtali við RÚV.

Eygló Harðardóttir, félagsmálaráðherra, segir að aðgerðin muni spara velferðarráðuneyti fé og hafi verið nauðsynleg í ljósi þess að 1,3% aðhaldskrafa var gerð á ráðuneytið. Eftir sem áður sé bótatímabil með því lengsta sem þekkist á Norðurlöndum.