Fjárfestirinn Skúli Gunnar Sigfússon, sem oft er nefndur í sömu andrá og Subway, fer ófögrum orðum um lögmanninn Svein Andra Sveinsson í aðsendri grein sem birtist í Fréttablaðinu í dag. Lögmaðurinn hefur frá 2016 verið skiptastjóri EK 1923 ehf., áður Eggerts Kristjánssonar ehf. (EK), og hefur ágreiningur þeirra tveggja, vegna þeirra starfa, reglulega ratað á síður blaðanna, fyrir dómstóla og úrskurðarnefnd lögmanna.

Fyrirsögn greinarinnar er „Siðblindur Sveinn Andri Sveinsson“ en í henni segir Skúli að Sveinn Andri hafi alltaf ætlað sér að fá þann pening sem til var í þrotabúinu eða um 117 milljónir. Hins vegar hafi hann að auki ætlað sér að ná fasteigninni Skútuvog 3 inn í búið svo verðmæti hennar, tæplega hálfur milljarður, kæmi til búsins.

Umrædd eign færðist til félags Skúla, Sjöstjörnunnar ehf., er fyrirrennara EK 1923 var skipt upp. Segir Skúli að greitt hafi verið fyrir eignina með yfirtöku hluta skulda EK og hins vegar með útgáfu nýrra hluta í Sjöstjörnunni.

„Skiptin voru auglýst í Lögbirtingablaðinu og gafst kröfuhöfum EK kostur á að gera athugasemdir við þau, en engar athugasemdir komu fram. Faxaflóahafnir höfðu forkaupsrétt að fasteigninni en kusu að nýta hann ekki. Skútuvogur 3 fór því sannanlega á fullu verði inn í Sjöstjörnuna því vitanlega hefði forkaupsréttarhafi nýtt sinn rétt ef verið væri að ráðstafa eign á undirverði,“ segir Skúli.

Þrátt fyrir það, fullyrðir Skúli, hafi skiptastjórinn þráast við að gera viðskiptin tortryggileg og reynt að láta Sjöstjörnuna greiða fyrir fasteignina í tvígang. Tilraunir lögmanns Skúla til að ná fram samningum hafi ekki gengið og er Skúli handviss um það hver ástæðan fyrir því sé.

„Sveinn Andri er ekki vitlaus maður, þótt siðblindur sé, og veit að náist samningar getur hann ekki skráð á sig vinnustundir við að reka dómsmál,“ segir Skúli. Fullyrðir hann að skiptastjórinn hafi skráð á sig meira en 2.400 klukkustunda vinnu, það er nærri átján mánuðir af fullri vinnu fimm daga vikunnar, og muni fá fyrir það 120 milljónir króna.

„Sveinn Andri á mikið undir í þessu máli. Hann er búinn að eyða öllum peningunum, sem til voru í þrotabúi EK, aðallega í sjálfan sig, en þó líka í vini sína og kunningja, sem hann hefur kallað sér til aðstoðar. Hans eina von er að Landsréttur staðfesti endaleysuna frá héraðsdómi um að greiða skuli tvisvar fyrir sömu eignina. Ella er hann ábyrgur gagnvart kröfuhöfum EK 1923 ehf., sem ekki fá svo mikið sem túskilding með gati úr búinu, því að skiptastjórinn, sem kallaður hefur verið opinberlega „endaþarmur íslenskrar lögmennsku“, er búinn að sjúga hvern einasta eyri í eigin rann,“ segir í niðurlagi greinarinnar.

Meðfylgjandi greininni er athugasemd frá skiptastjóranum þar sem endalok dómsmála, er þrotabúið hefur höfðað á hendur Skúla og félögum hans, eru reifuð. „Héraðssaksóknari er síðan með í rannsókn kærur skiptastjóra á hendur [Skúla Gunnari]. Allar hafa þessar aðgerðir verið samþykktar af kröfuhöfum. Ætli sé ekki rétt í þessu eins og svo oft að spyrja að leikslokum,“ segir í athugasemd Sveins Andra.