„Ég held að allir sanngjarnir menn hafi lagt gríðarlega mikið af mörkum svo kjarasamningar nái fram að ganga. Svikabrigsl Samtaka atvinnulífsins eru orðin hvimleið,“ segir Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra um ákúrur aðila vinnumarkaðarins þess efnis að ríkisstjórnin hafi ekki staðið við gefin loforð í síðustu kjarasamningum þar sem 4-5% hagvexti var lofað auk annarra þátta.

Í Morgunblaðinu í dag var m.a. haft eftir Vilhjálmi Egilssyni, formanni Samtaka atvinnulífsins, að þau ætli að yfirfara kjarasamninga í því sem sagt var svika stjórnvalda í atvinnumálum. Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, sagði sömuleiðis stjórnvöld ekki hafa staðið við forsendur kjarasamninganna.

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, vakti máls á því í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag að eftir næstu áramót taki gildi launahækkun á grunni kjarasamninga aðila vinnumarkaðarins. Þetta verður þriðja launahækkunin á grunni samningsins. Hann sagði bæði SA og ASÍ telja stjórnvöld hafa í veigamestu atriðunum ekki hafa staðið við sinn hlut samkomulagsins sem þar náðist. Hagvöxtur sé undir loforðum, gjöld á atvinnulífið hafi ekki verið lækkuð og svo framvegis. Hann lagði jafnframt áherslu á að fá stjórnvöld að borðinu til að tryggja frið á vinnumarkaði.

Bjarni spurði ennfremur hvernig forsætisráðherra hyggist bregðast við svo forsendur kjarasamninga lendi ekki í uppnámi?

Vísar svikabrigslum til föðurhúsanna

Jóhanna brást harkalega við í tilsvörum sínum. Hún vísaði því sem sem hún sagði svikabrigsl aftur til föðurhúsanna og sagði þvert á móti öll málin hafa gengið fram sem samið var um. Ágreiningur sé um túlkun einstakra atriða.

„Ætla menn í alvöru að halda því fram að hún beri ábyrgðum á töfum, svo sem í Helguvík, alþjóðlegu fjármálakreppunni sem hefur tafið mörg fjárfestingarverkefni hér og ýmis fyrirheit sem verið er að vinna að?“ spurði Jóhanna, sagði 3% hagvöxt hér meiri en gengur og gerist í Evrópu nú um stundir og ítrekaði að óþolandi sé að sitja undir ásökunum af þessum toga.

Illugi Gunnarsson, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, hélt málinu áfram en gagnrýndi orðalag Jóhönnu. Hann lagði til að boðað yrði til sérstakrar umræðu á Alþingi þar sem Jóhönnu verði gefin kostur á skýra ummæli sín um svikabrigls eða draga ummæli sín til baka.

Jóhanna taldi slíkt óþarfa.