Búast má við því að félögum, sem skráð eru á First North markað kauphallar Nasdaq Iceland fjölgi eitthvað á næstu misserum, að mati Sigurðar Óla Hákonarsonar, verkefnastjóra í fyrirtækjaráðgjöf Íslandsbanka.

„Á þessum markaði eru tækifæri fyrir smærri fyrirtæki eða fyrir fyrirtæki sem kjósa léttara regluverk. Má þar t.d. nefna fyrirtæki sem eru í vexti og vilja sækja sér fjármagn á hlutabréfamarkað, eða þar sem eigendabreytingar standa fyrir dyrum. Regluverkið er, eins og áður segir, léttara á First North en á Aðalmarkaðnum og þá er kostnaður við skráningu lægri.“

Á mánudaginn stendur Íslandsbanki, ásamt kauphöllinni, fyrir fundi um First North markaðinn, og er Sigurður Óli meðal þeirra sem halda munu erindi á fundinum. Fundurinn verður í höfuðstöðvum Íslandsbanka að Kirkjusandi klukkan 8.30 á mánudagsmorgun.