Alþingi samþykkti í gær með 28 atkvæðum gegn 18 frumvarp sjávarútvegsráðherra, með breytingum frá atvinnuveganefnd, um stjórn makrílveiða.

Niðurstaðan varð sú, sem ráðherra hafði lagt upp með, að meta skyldi veiðireynslu út frá 10 af þeim 11 árum sem makrílveiðar hafa verið stundaðar af Íslendingum svo nokkru nemur.

Jafnframt var sú breyting samþykkt að ráðherra fær heimild til að ráðstafa 4.000 tonnum til handfæra- og línubáta, og á að úthluta veiðiheimildum til þeirra á grundvelli veiðireynslu með línu og handfærum.

Greiða þarf gjald fyrir úthlutun úr þessum 4.000 tonna potti, og verður það jafnhátt veiðigjaldi fyrir makríl.

Bannað verður að flytja veiðiheimildir frá handfæra- og línubátum til annarra skipa, en eftir 15. september ár hvert má ráðherra ráðstafa því sem óveitt er af línu- og handfærahlutdeild yfir til stærri skipa, og kemur þá sama gjald fyrir.

Snarpar umræður
Stuttar en nokkuð snarpar umræður urðu um málið á lokasprettinum. Meðal annars gagnrýndu bæði Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, þingmaður Viðreisnar, og Oddný Harðardóttir, þingmaður Samfylkingar, það að tækifærið hafi ekki verið notað til að prófa annars konar fyrirkomulag við úthlutun veiðiheimilda en hingað til hefur tíðkast, nefnilega uppboðsleiðina.

Þorgerður Katrín sagði að með þessari afgreiðslu væri verið að festa núverandi fyrirkomulag í sessi.

Undir lok umræðunnar steig Steingrímur J. Sigfússon þingforseti í ræðustól og sagðist algerlega sáttur við frumvarpið með breytingum sem atvinnuveganefnd gerði. Hins vegar tók hann fram að „eftir á að hyggja og í ljósi dóma og eftir á að hyggja og í ljósi dóma hefði verið traustara að setja lagastoð undir tímabundna stjórnun makrílveiða alveg frá árunum 2010 og 11 og til dagsins í dag.“

Hann sagði úthafsveiðilögin meingölluð að þessu leyti: „Þau taka á engan hátt því hvernig á með málefnalegum hætti að takast á  við það þegar til dæmis nýjar tegundir mæta inn í lögsöguna. Og reyndar á það sama við um stjórn fiskveiða þegar menn hefja nýtingu á nýjum tegundum.“

Yrði útgerðum til skammar
Varðandi málaferli sem boðuð hafa verið í framhaldi af Hæstaréttardómunum í desember síðastliðnum dró Steingrímur hvergi undan:

„Það verður þeim útgerðum til skammar sem ætla að fara að sækja sér fjármuni til skattgreiðenda þegar verið er að færa þeim gríðarlega verðmæt réttindi og réttindi sem þeir hafa notið undanfarin ár því skaðabótamennirnir verða væntanlega þeir sem hafa haft af því góða afkomu að veiða makríl undanfarin ár og munu gera í framtíðinni. Ég öfunda ekki þá eigendur eða stjórnendur sjávarútvegsfyrirtækja sem ætla að bjóða íslensku þjóðinni upp á það.“

Hann sagði „tal um milljarða eða milljarðatuga skaðabætur fráleitt, vegna þess að þetta eru aðilar sem hafa veitt og haft góða afkomu af því að veiða makríl.“

Hann sagðist ekki kvíða málaferlum enda liggi tjónið ekki fyrir, en „fari svo að útgerðin fái sér dæmda, stór eða smá, einhverjar skaðabætur þá legg ég til að hún borgi þær skaðabætur sjálf í formi hærri auðlindagjalda á komandi árum.“

Undraðist hótanir
Daginn áður hafði reyndar Ásmundur Friðriksson, annar tveggja fulltrúa Sjálfstæðisflokksins í atvinnuveganefnd, kvatt sér hljóðs um málið og kvað þá við nokkuð annan tón.

Ásmundur sagðist vilja vekja máls á því að nefndin hafði unnið hörðum höndum að því að ná sátt í málinu, allar leiðir hafi verið skoðaðar en þrátt fyrir það hafi ekki tekist að gera alla ánægða.

„Ég verð að viðurkenna það að ég trúði því, kannski í barnslegri trú, að þeir sem við vorum að vinna fyrir myndu nú láta niðurstöðu nefndarinnar duga, og sætta sig við hana,“ sagði Ásmundur.

„Þess vegna kemur það mér mjög á óvart núna að nú þegar hafa útgerðir og útgerðarflokkar hótað málsókn í þessu máli og það veldur mér miklum áhyggjum og miklum heilabrotum um það hvernig ég get afgreitt þetta mál frá þinginu,“ sagði Ásmundur.

„Maður situr undir því að hafa ekki neinn skilningi á málunum með því að vilja ekki færa nánast endalausar aflaheimildir yfir á bátana. Það var auðvitað ekki hægt. Það er verið að flytja milljarðaverðmæti yfir á útgerðirnar, og ég spyr: Fá menn aldrei nóg, þegar við erum í þessum erfiðleikum sem við höfum verið í með þetta mál. Það þarf kannski að endurskoða þetta allt saman.“