Það er sóun á kröftum skattayfirvalda að rukka fyrirtæki um ársreikninga til opinberrar birtingar hjá Ársreikningaskrá, að sögn Benedikts Eyjólfssonar, forstjóra Bílabúðar Benna. Hann var á þriðjudag dæmdur til að greiða 750 þúsund krónur í sekt fyrir að skila ársreikningum of seint.

Benedikt hefur ekki legið á skoðunum sínum eftir að dómurinn féll. Hann segir í samtali við Morgunblaðið í dag að opinber birting hafi nákvæmlega ekkert með skattheimtu eða skattaeftirlit að gera, slík opinber birting komi ekki í veg fyrir að fyrirtæki verði gjaldþrota.

Benedikt segir í samtali við blaðið að Bílabúð Benna hafi alltaf skilað ársreikningum á réttum tíma, öll þau 38 ár sem fyrirtækið hafi starfað. Ársreikningarnir hafi fylgt skattframtalinu. Aftur á móti hafi fyrirtækið látið hjá líða að skila inn ársreikningum til opinberrar birtingar af samkeppnisástæðum.

„Ég hef verið í samkeppni við bílaumboð sem hafa verið í eigu banka eftir hrunið. Það er ósanngjörn samkeppni þar sem bankarnir hafa fulla vasa fjár á meðan ég verð að reka mitt fyrirtæki með hefðbundnum hætti. Ég lét hjá líða að birta opinberlega ársreikninga svo að talnaglöggir bankamenn gætu ekki rýnt í gögn frá fyrirtæki mínu og reynt að sjá hvað þeir geti gert betur í rekstri bílaumboða í sinni eigu,“ segir Benedikt í samtali við blaðið.