Þingmaðurinn Árni Johnsen segir þau Ragnheiði Elínu Árnadóttur, Unni Brá Konráðsdóttur og Ásmund Friðriksson, bæjarstjóra í Garði, sem lentu í þremur efstu sætunum í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi, hafa rottað sig saman um að koma sér út af þingi. Árni segir í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag að skelfilegt sé að vakna upp við brotnar leikreglur og hafi margir heimtað að hann fari í sérframboð.

„En ég svík ekki Sjálfstæðisflokkinn frekar en  Fjalla-Eyvindur frændi,“ skrifar Árni og ætlar að bíða eftir næsta prófkjöri. Árni var í öðru sæti á lista flokksins í Suðurkjördæmi en stefndi á það fyrsta. Hann endaði hins vegar í 7. sæti í prófkjörinu.

Árni segir um samkrull þremenninganna að þeir hafi gert allt til að bola sér til hliðar. Þau hafi búið til tilboðspakka og falboðið sig hvert með öðru.

„[...]  ekki á eigin verðleikum,“ skrifar Árni. „[H]eldur bögglauppboði og hrossakaupum með miklum skyndiáróðri og þúsundum hringinga í stuttri lotu, Facebook og fleiri meðulum og móðursýki og ætlunarverkið tókst. Það var sem sagt ákveðið í þröngan hóp klíku í Reykjanesbæ hverjir ættu að verða þingmenn Suðurkjördæmis fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Það var skelfilegt að vakna upp við brotnar leikreglur, falsið og svikin.“