„Við gamlir stuðningsmenn og samherjar Þorsteins Pálssonar biðjum hann forláts að við skulum ekki skilja hvað fyrir honum vakir með ummælum sínum um kosningasvik forystu Sjálfstæðisflokksins,“ skrifar Halldór Blöndal, fyrrverandi ráðherra Sjálfstæðisflokksins. Hann ritar aðsenda grein sem birt er í Morgunblaðinu í dag um ummæli þeirra Þorsteins Pálssonar, fyrrverandi ráðherra og formanns Sjálfstæðisflokksins, og Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, fyrrverandi menntamálaráðherra og varaformanns flokksins.

Halldór Blöndal við opnun Hvalfjarðarganganna
Halldór Blöndal við opnun Hvalfjarðarganganna

Þorsteinn sagði í útvarpsþættinum Vikulokin á RÚV á dögunum það vera stærstu kosningasvik íslenskra stjórnmála að ríkisstjórnin ákveði að slíta aðildarviðræðum við Evrópusambandið án þess að þjóðin fái að greiða atkvæði um það hvort hún vilji halda viðræðunum áfram. Halldór segir þetta rangt hjá Þorsteini og það eigi Þorsteinn að vita:

„Síðasti landsfundur Sjálfstæðisflokksins lagði einmitt svo fyrir, að það yrði gert. Fundinn sátu hátt í 1.400 manns. Og sem gamall formaður Sjálfstæðisflokksins veit Þorsteinn að grannt er gengið eftir því, að flokksforystan fylgi samþykktum flokksins eftir í umdeildum málum. Eða hvað hefðu sjálfstæðismenn sagt, ef Bjarni Benediktsson hefði gert hið gagnstæða? Hefði það verið í samræmi við stefnu flokksins að taka aðildarviðræður upp að nýju? Nei, vitaskuld ekki. Það vitum við öll jafnvel, Þorsteinn, Þorgerður Katrín og ég. Í ályktuninni stendur: „Áréttað er að aðildarviðræðum við ESB verði hætt og þær ekki teknar upp aftur nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu.“

Ekki bólar á samningadansi ESB

Halldór rifjar sömuleiðis upp skrif Össurar Skarphéðinssonar, þingmanns Samfylkingarinnar og fyrrverandi utanríkisráðherra um setu Þorsteins í samninganefnd Íslands um aðild að Evrópusambandinu.

Halldór skrifar:

„Þegar Þorsteinn Pálsson tók sæti í samninganefndinni við Evrópusambandið að beiðni Össurar Skarphéðinssonar leit ég svo á, að það gerði hann til að gæta hagsmuna Íslendinga þegar kaflarnir um landbúnað og sjávarútveg yrðu opnaðir og ég skýrði það svo fyrir undrandi samherjum okkar í pólitík. En það kom aldrei til þess. Kosningaloforðið um að opna þessa kafla þegar í stað og ganga rösklega til verks var svikið. Í dagbókarfærslum sínum fyrir árið 2012 slær Össur Skarphéðinsson, gamall Þjóðviljaritstjóri, úr og í. Það má lesa á milli línanna, að hann er ekkert lamb að leika sér við maðurinn sá þegar hann heldur á pennanum. En það leynir sér heldur ekki að hann hefur orðið fyrir vonbrigðum eins og með Sovétið fyrir aldarfjórðungi - „það bólar ekkert á að ESB bjóði í samningadans“, stynur hann á einum stað.“

Hann heldur áfram:

„Eigum við Íslendingar þess kost að halda sjávarútveginum, landgrunninu öllu, utan við regluverk Evrópusambandsins eins og aðildarsinnar þrástagast á? Mér þætti vænt um að Þorsteinn skýrði frá því hvert mat hans sé á því. Það er erfitt að skiptast á skoðunum nema menn opni hug sinn og séu hreinskilnir.“