Þrátt fyrir þráa og þrjósku Alþingismanna þá mun flugvöllurinn í Reykjavík fara fyrr eða síðar. „Ég held að hann fari fyrr,“ segir Mörður Árnason, varaþingmaður Samfylkingarinnar, í fyrstu umræðu um frumvarp til laga um skipulags- og mannvirkjamál á Reykjavíkurflugvelli . Höskuldur Þórhallsson, þingmaður Framsóknarflokksins, mælti fyrir frumvarpinu í dag.

Fram kemur í frumvarpinu að ráðherra fari með yfirstjórn skipulags- og mannvirkjamála á Reykjavíkurflugvelli í stað þess að borgarráð ráði honum. Í frumvarpinu segir jafnframt að Alþingi skipi fimm menn í skipulags- og byggingarnefnd flugvallarins. Tveir skuli skipaðir samkvæmt itlnefningu ráðherra, tveir samkvæmt tilnefningu Reykjavíkurborgar og einn án tilnefningar.

Mörður sagði umræðuna um framtíð Reykjavíkurflugvallar ráðast af því hvað verði um svæðið.

„Ef höfuðborgin á að fá að vaxa í takt við þær hugmyndir sem nú eru uppi þá þurfum við á því nágrenni við miðbæinn sem þar getur komist fyrir,“ sagði hann og benti á að sú hugmynd sé úreld sem viðruð var í kringum 1960 að hafa flugvöllinn í Vatnsmýrinni og byggja upp bílaborg í Reykjavík.