*

miðvikudagur, 26. febrúar 2020
Innlent 22. febrúar 2019 11:21

Segir tilboðið vera kaupmáttarýrnun

Formaður VR segir málflutning SA vera fjarstæðukenndan áróður sem opinberi sturlað viðhorf til stöðunnar á vinnumarkaði.

Ritstjórn
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, segir málflutning SA um ábyrgð fela í sér tvískinnung.
Haraldur Guðjónsson

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, segir tilboð Samtaka atvinnulífsins til meginþorra skjólstæðinga sinna fela í sér kaupmáttarrýrnun. „2,5% hækkun launa í 3,6% verðbólgu er ekki ábyrg nálgun í kjaraviðræðum,“ skrifar Ragnar í færslu á Facebook í morgun, en færsluna segir hann vera viðbragð við málflutningi viðsemjenda sinna.

„Á meðan lýðskrumarar og aðrir lobbíistar sérhagsmuna tala um nútíma hagfræði, kulnun í hagkerfinu eða skrumskæla kröfugerðir verkalýðshreyfingarinnar eins og kom fram í málflutningi SA í gær þá er rétt að benda á nokkrar staðreyndir,“ skrifar Ragnar. 

Ragnar gagnrýnir einnig fasta krónutöluhækkun í tilboði SA, „15.000 kr. hækkun á laun undir 600.000 eru 8.975 kr. útborgað!“ og síðar í færslunni bætir hann við: „SA vill nálgast málin af meiri ábyrgð og býður félagsmönnum VR 15.000 kr. á meðan laun framkvæmdastjóra SA munu hækka um 90.000 kr. Samkvæmt sama tilboði.

SA vill nálgast málin af meiri ábyrgð og býður félagsmönnum VR 2,5% á meðan laun bankastjóra Landsbankans hækkuðu um 82%. SA vill nálgast málin af meiri ábyrgð og býður félagsmönnum VR 2,5% á meðan laun Alþingismanna og æstu embættismanna hækkuðu um 45% og yfir,“ skrifar Ragnar og bætir við að lokum:

Fullyrðingar SA um að krafa okkar sé 60 til 85% á öll laun er svo fjarstæðukenndur áróður að hann er varla svaraverður en hlýtur að opinbera sturlað viðhorf viðsemjenda okkar til kröfugerðarinnar og stöðunnar á vinnumarkaði.“

Stikkorð: SA kjaradeila Ragnar þór