Það er ótrúlegt að jafn stórt neytendamál hafi farið í gegnum Alþingi án nokkurrar umræðu í skjóli nætur, að sögn Glúms Björnssonar efnafræðings. Hann finnur margt að nýjum lögum um hlutfall endurnýjanlegra orkugjafa í bílum sem Alþingi samþykkti í vor. Hann segir að með lögunum sé verið að þvinga Íslendinga til að lúta undirmarkmiðum Evrópusambandsins löngu áður en þörf sé á.

Glúmur telur að lögin muni m.a. valda því að innkaupsverð á eldsneyti muni hækka, og það skila sér í verðhækkunum á eldsneyti. Lögin taka gildi nú um áramótin og kveða á um að 3,5% eldsneyti til samgangna verði endurnýjanleg á næsta ári og svo 5% árið 2015. Lögin áttu upphaflega að taka gildi árið 2015. Í meðförum þingsins var gildistöku laganna flýtt um ár.

Tilskipunin eigi ekki við hér

Glúmur segir að lögin hafi verð sett með vísun í tilskipun frá Evrópusambandinu (ESB) sem kveður á um að hlutfall svokallaðs endurnýjanlegs eldsneytis verði komið í 10% árið 2020 sem er hlutfall af heildarmarkmiði ESB um að hlutfall endurnýjanlegrar orku verði komið í 20% eftir sjö ár. Hlutfall endurnýjanlegrar orku hér á landi er hins vegar 75% nú þegar. Glúmur segir þjóðina hafa náð tilskyldum mörkum ESB í raun við lýðsveldisstofnun og telur ekkert benda til að Íslendingar hefðu þurft að gera neitt  fyrr en 2020, það er að segja eftir sex ár í fyrsta lagi. Hann efast reyndar um að tilskipunin eigi við hér þar sem hlutfallið er mun hærra hér á landi en innan ESB.

Í minnisblaði hans segir að verði lögin látin standa óbreytt þá muni innflutningur á jurtaolíu til íblöndunar í díselolíu og tenóli hefjast og og geti allt umstangið, kaup á nýjum tönkum og tilheyrandi búnaði, leitt til þess að útsöluverð á eldsneyti hækki. Samfara þessu telur hann eyðslu eldsneytis aukast og þurfi bíleigendur því að taka oftar eldsneyti en nú.