„Innleiðing EES-löggjafar innan tilskilinna fresta er grundöllur fyrir þátttöku Íslands í innri markaðinum, og er núverandi staða áhyggjuefni,“ segir Oda Helen Sletnes, forseti stjórnar Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA). ESA hefur vísað sex málum tengd Íslandi til EFTA-dómstólsins vegna vanefnda á innleiðingu nokkurra tilskipana. Þetta er fjarri því fyrsta skiptið sem slíkt gerist. Á síðastliðnum tveimur mánuðum hefur EFTA-dómstóllinn kveðið upp sjö dóma í samningabrotamálum Íslands vegna EES-samningsins. Í gær þrýsti svo ESA á stjórnvöld að taka ákvörðun um framtíð þriggja sparisjóða , þ.e. Sparisjóðs Bolungarvíkur, Sparisjóðs Svarfdæla og Sparisjóðs Þórshafnar. Forseti ESA sagði stjórnvöld verða að taka endanlega ákvörðun um framtíð þeirra, ýmist leggja fram áætlun sem sýni fram á rekstrarhæfi sparisjóðanna til lengri tíma eða setja þá í slitameðferð.

Málin sex sem ákveðið hefur verið að vísa til EFTA-dómstólsins nú voru höfðuð af ESA sumarið 2013 þar sem stjórnvöld höfðu ekki staðið við skuldbindingar sínar samkvæmt EES samningnum og gert nauðsynlegar breytingar á lögum eða reglum innan tilskilinna tímamarka.

Í tilkynningu frá ESA segir Sletnes:

„Okkur þykir leitt að þurfa að vísa svo mörgum málum til dómstólsins þar sem Íslandi hefur ekki tekist að gera viðhlítandi ráðstafanir til að koma í veg fyrir það.“