Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, segir kjánalegt að gefa sér það að stjórnarandstaðan muni leggjast gegn frumvarpi ríkisstjórnarinnar um skuldaniðurfellingar. Stjórnarandstaðan hafi ekki hugmynd um hvernig frumvarpið muni líta út.

Það er engin ástæða til að ætla að þessi stjórnarandstaða muni haga sér með þeim hætti að frumvarpið fái ekki framgang í þinginu. Við höfum ekki tileinkað okkur vinnubrögð síðust stjórnarandstöðu, segir Árni Páll í samtali við Fréttablaðið .

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra sagði í gær að það gæti tekið nokkurn tíma að koma umræddu frumvarpi í gegnum þingið. Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra sagði í síðustu viku að þótt tillögur kæmu frá nefndum í nóvember ætti eftir að taka þær til skoðunar í þinginu.