Nokkur ágreiningur virðist vera uppi innan þingflokks Sjálfstæðisflokksins um mikilvægi íslenska landbúnaðarins. Haraldur Benediktsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segist ekki taka ummæli Vilhjálms Bjarnasonar um landbúnað alvarlega.

Líkt og VB.is greindi frá var Vilhjálmur Bjarnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, í viðtali á Sprengisandi í gær. Þar sagði Vilhjálmur að landbúnaður skipti nær engu máli varðandi umsókn um aðild að Evrópusambandinu. Hlutdeild greinarinnar sé hálft til eitt prósent af landsframleiðslu, stærstur hluti tekna komi frá beingreiðslum og því teljist landbúnaður varla til atvinnuveganna.

Í hádegisfréttum Bylgjunnar í dag segir Haraldur Benediktsson, sem er fyrrverandi formaður Bændasamtakanna, að ummæli Vilhjálms séu ekki í samræmi við stefnu Sjálfstæðisflokksins. „Sjálfstæðisflokkurinn hefur með stefnu sinni stutt við atvinnugreinina landbúnað og mun gera áfram,“ sagði Haraldur.

Spurður hvort Vilhjálmur hafi ekki farið með réttar tölur í viðtalinu segir Haraldur að hægt sé að kokka tölur með alls konar hætti. Með því að stilla dæminu upp á þennan hátt sé Vilhjálmur kannski að draga fram að ekki sé nógu hátt verð á landbúnaðarafurðum. Þá segir Haraldur: „Ég veit ekkert á hvaða vegferð Vilhjálmur er, að skella slíkum ummælum framan í eina atvinnugrein eins og hann er að gera með þessum hætti. Hann verður bara að eiga þetta við sig.“