Aðeins 10 til 15 þingmenn eru hæfileikaríkir. Vafaatriði er hvort afgangurinn eigi þar nokkurt erindi. Þetta segir Sighvatur Björgvinsson, fyrrverandi ráðherra og þingmaður Alþýðuflokks og Samfylkingar.

Sighvatur skrifar harðorða grein sem birtist í Fréttablaðinu í dag undir fyrirsögninni: „Leikarar í lélegum farsa.“

Hann bendir á að í síðustu þingkosningum hafi 27 nýir þingmenn sest á Alþingi. Svo mikill fjöldi nýrra þingmanna hefur aldrei áður komist á þing.

„Þó sumir af hinum nýju þingmönnum séu efnilegir og hafi óvænt fengið meiri ábyrgðarstörf en nýliðum eru jafnan fengin er oft sárgrætilegt að hlusta á hve mikið skortir á þekkingu þeirra jafnvel á eigin umfjöllunarefnum þegar þeir mæta spyrlum ljósvakamiðla. Eru þá eins og álfar út úr hól og virðast ekki einu sinni gera sér grein fyrir því sjálfir. Á það jafnt við um suma af mínum samherjum sem aðra og geri ég þar ekki upp á milli. Þegar verst lætur er eins og leikari sé að reyna að leika stjórnmálamann í lélegum farsa - og fari auk þess illa með hlutverkið,“ skrifar Björgvin og telur fáa jafnast á við þá Ólafur Thors, Bjarni Benediktsson, Matthías Bjarnason, Ólafur Björnsson, Emil Jónsson, Gylfi Þ. Gíslason, Benedikt Gröndal, Hannibal Valdimarsson, Eysteinn Jónsson, Ólafur Jóhannesson, Steingrímur Hermannsson, Lúðvík Jósepsson, Eðvarð Sigurðsson, Björn Jónsson og Magnús Kjartansson. Þeir hafi sett svip sinn á Alþingi.

Sighvatur heldur áfram:

„Gömlum hundi í pólitík eins og mér þykir með fádæmum þegar fólk, sem setið hefur þrjá vetur á þingi, eða jafnvel aldrei komið þar nálægt, heldur sig vera þess umkomið að taka að sér forystu í stjórnmálaflokki og þar með hugsanlega að þurfa að axla forystuábyrgð fyrir þjóð sína. Messaguttar kalla ekki eftir skipstjórnarsætinu eftir sinn fyrsta túr.“