Breski bankinn Stardard Chartered mun segja upp allt að 1.000 stjórnendum að því er kemur fram í bréfi sem sent var til starfsmanna bankans. Í frétt BBC segir að markmiðið sé að draga úr kostnaði hjá bankanum.

Bankinn hefur vaxið hratt frá því að fjárkreppan hófst haustið 2008 og hefur starfsmönnum fjölgað úr 44.000 árið 2005 í um 88.000 núna. Endurskipulagning á starfsemi bankans þýðir að hægt sé að fækka stjórnendum um allt að 25%, en í þeim hópi eru alls 4.000 manns í bankanum öllum.

Bill Winters tók við sem forstjóri bankans í júní á þessu ári og sagði við það tækifæri að hann ætlaði að einfalda skipurit bankans og skipta um yfirstjórn. Nú þegar hefur bankinn selt dótturfyrirtæki í Hong Kong, Kína og Kóreu og nemur hagnaður af sölunum um 219 milljónum dala, andvirði um 27 milljarða króna. Winters hefur einnig dregið úr arðgreiðslum til hluthafa til að styrkja eiginfjárstöðu bankans. Hann hefur ekki útilokað að til hlutafjáraukningar gæti komið.