*

laugardagur, 20. júlí 2019
Innlent 1. september 2014 17:21

Segir upplýsingar um eignarhald fjölmiðla úreldar

Fjölmiðlanefnd vill fá nýjar upplýsingar um eignarhald á öllum fjölmiðlum.

Jón Aðalsteinn Bergsvein
Birgir Ísl. Gunnarsson

Hluti þeirra upplýsinga sem fjölmiðlanefnd fékk um eignarhald á fjölmiðlum fyrir tveimur árum eru úreldar, að sögn Elfu Ýr Gylfadóttur, framkvæmdastjóra fjölmiðlanefndar. Nefndin sendi síðdegis í dag út tilkynningu í dag þar sem hún óskar eftir uppýsingum um starfsemi og eignarhald fjölmiðla. 

Elfa bendir á það í samtali við VB.is að þessi upplýsingaskylda liggi á öllum fjölmiðlum og verði þeir að fylgja þeim.

„Við vorum búin að átta okkur á því að þótt einhverjir fjölmiðlar sinna þessari skyldu þá eru aðrir sem gleyma því og þess vegna fáum við ekki þessar upplýsingar. Það var búið að vera í umræðunni að senda þetta út. En þær hræringar sem urðu núna þá varð það til þess að ráðist var í það núna,“ segir hún. 

Tilkynning fjölmiðlanefndar í heild sinni:

„Í ljósi opinberrar umræðu um málefni fjölmiðla og hræringa á fjölmiðlamarkaði að undanförnu hefur fjölmiðlanefnd ákveðið að kalla á ný eftir upplýsingum um starfsemi og eignarhald fjölmiðla, frá öllum skráðum og leyfisskyldum fjölmiðlum. Bréf þess efnis verða send fjölmiðlaveitum á næstu dögum. Í einhverjum tilvikum hefur skort á nákvæmni og uppfærslu slíkra upplýsinga en kveðið er á um í lögum um fjölmiðla nr. 38/2011 að upplýsingaskylda hvíli á fjölmiðlaveitunum. 

Þá hefur fjölmiðlanefnd jafnframt ákveðið að óska á ný eftir upplýsingum frá öllum fjölmiðlum um reglur um ritstjórnarlegt sjálfstæði og hvort breytingar hafi orðið á þeim. Fjölmiðlanefnd bendir á að reglur um ritstjórnarlegt sjálfstæði þeirra starfsmanna sem sinna fréttum og fréttatengdu efni ber að endurskoða árlega, tilkynna fjölmiðlanefnd þegar endurskoðun hefur farið fram og senda nefndinni nýja útgáfu af reglunum til staðfestingar hafi breytingar verið gerðar.

Jafnframt vekur fjölmiðlanefnd athygli á því að verði eigendaskipti að fjölmiðlaveitu ber seljanda og kaupanda að tilkynna fjölmiðlanefnd um eigendaskiptin innan tveggja virkra daga frá gerð kaupsamnings. Þá skal stjórn félags sem stundar fjölmiðlun senda fjölmiðlanefnd hlutaskrá félagsins innan fjögurra virkra daga frá því aðalfundur var haldinn. Farið verður fram á að framangreindar upplýsingar  berist fjölmiðlanefnd fyrir miðjan mánuð.“