Dr. Roel Beetsma, deildarforseti Viðskipta- og hagfræðideildar Háskólans í Amsterdam, hélt erindi í hátíðarsal Háskóla Íslands í dag um kosti þess og galla að Ísland taki upp evru. Að hans mati þjónar upptaka evru hagsmunum Íslands til lengri tíma litið vegna þess að hún myndi draga úr hárri og sveiflukenndri verðbólgu og leiða til lægra vaxtastigs.

Engu að síður bendir dr. Beetsma á að það sé vissulega erfitt fyrir ríki á borð við Ísland sem er með fáar höfuðatvinnugreinar að glata sjálfstæðri peningamálastefnu. Lykilatriði sé þó að stuðla að fjölbreyttari atvinnuvegum og sveigjanlegra vinnuafli á Íslandi. Í því ljósi sagði Beetsman að vandi vissra ríkja innan Evrópusambandsins á borð við Portúgal, Ítalíu, Írland og Grikklands væri ekki vandi vegna evrunnar heldur eigi hann rætur sínar að rekja til kerfislægra vandamála innan þessara landa.

Óvissa myntsvæðisins tímabundin

Töluverð óvissa er um framtíð Evrópusambandsins og evrópska myntsvæðisins um þessar mundir. Spurður að því hvort sú óvissa sé ekki ákveðin hindrun fyrir aðild Íslands að evrunni segir Beetsma að svo sé ekki. Að hans mati er óvissan tímabundin og telur hann að Evrusvæðið hafi náð miklum framförum á síðustu árum. Haldi þær framfarir áfram er hann viss um að stuðningur íslendinga við upptöku evru muni aukast.

VB Sjónvarp ræddi við Dr. Beetsma.