Ólafur Guðmundsson, tæknistjóri EuroRap á Íslandi, segir útilokað að Vaðlaheiðargöng muni standa undir sér í framtíðinni. Þetta kemur fram í DV .

EuroRap eru alþjóðleg samtök sem stuðla að bættu umferðaröryggi. Ólafur segir í samtali við DV að hann telji ríkið geta tapað í kringum 20 milljörðum króna á Vaðlaheiðargöngum á næstu 27 árum.

„Miðað við meðalverð í göngin og þann bílafjölda sem maður sér fram á að muni fara í gegnum þau þá hrökkva rekstrartekjurnar ekki einu sinni fyrir vöxtunum fyrsta árið, hvað þá fyrir afborgunum og rekstri. Og munar þar verulega,“ segir Ólafur.

Ólafur telur að tapið á fyrsta árinu verði um 700 milljónir króna og að sá peningur sem ríkið hafi lánað vegna ganganna muni aldrei fást til baka. Nú þegar hefur íslenska ríkið lánað um fimm milljarða króna vegna ganganna.