Þórólfur Matthíasson, prófessor við hagfræðideild Háskóla Íslands, segir útreikinga Verðlagsnefndar búvara um kostnað bænda við mjólkurframleiðslu vera kolranga. Í aðsendri grein í Fréttablaðinu segir Þórólfur að Verðlagsnefnd hafi reiknað út að kostnaðurinn við framleiðslu á einum lítra af mjólk árið 2012 hafi verið 179,77 krónur. Nefndin hafi hins vegar einungis skammtað framleiðendum 127,39 krónur á lítrann.

„Hér skeikar svo miklu að væri einhver glóra í kostnaðarlíkani Verðlagsnefndarinnar væru allir mjólkurbændur landsins löngu gjaldþrota!“ skrifar Þórólfur.

Hann segir jafnfrant að með því að skoða búreikninga komi í ljós að kostnaður meðalmjólkurframleiðslubús á Íslandi við að framleiða lítra af mjólk hafi verið 121,19 krónur árið 2012. Slumpverðlagning Verðlagsnefndar búvara sé bændum því síður en svo óhagstæð.

„Hefði Verðlagsnefnd búvara endurnýjað verðlagsgrundvöll sinn í samræmi við tækniþróun og vinnusparnað hefði verð til bænda átt að vera um 5% lægra árið 2012 en það í raun var. Þarna munar um 6 krónum á lítra. Hvort vinnslukostnaður sé ofmetinn með sama hætti skal ósagt látið, en sjaldan er ein báran stök í verðlagsmálum. En vinnubrögð af því tagi sem Verðlagsnefnd búvara er hér uppvís að eru ekki sæmandi fyrir nefnd sem að nafninu til starfar á kostnað og í þágu almennings í landinu,“ skrifar Þórólfur og krefst þess að nefndin geri opinberlega grein fyrir verðákvörðunum sínum.