Greiningardeild Arion banka bendir á mikilvægi þróunar á vinnumarkaði, gengisþróunar krónunnar og aðhalds í ríkisfjármálum í því  hvort verðbólguþrýstingur aukist á næstu misserum.

Hins vegar fari verðbólguhorfur batnandi um stundarsakir og útlit sé fyrir að verðbólga haldist undir verðbólgumarkmiðum Seðlabankans vel inn á næsta ár.

Viðrar vel til vaxtalækkana

Þetta kemur fram í yfirlitsgrein greiningardeildarinnar sem ber yfirskriftina, Viðrar vel til vaxtalækkunar.

Segja þeir að 50 punkta vaxtalækkun Seðlabankans hafi komið flestum á óvart, en í kjölfarið hafi ávöxtunarkrafa ríkisbréfa lækkað um 20 til 60 punkta, og úrvalsvísitalan hækkað um tæp 2,6%.

Skortur á starfsfólki

Benda þeir á skoðanakönnun Gallup meðal 400 stærstu fyrirtækja landsins þar sem hlutfall fyrirtækja sem teldi skort vera á vinnuafli hefði hækkað um 11 prósentustig milli kannana, og teldi um 42% þeirra skort vera á starfsfólki.

Rekja megi vaxandi eftirspurn eftir vinnuafli helst til byggingargeirans þar sem enn sé skortur á íbúðarhúsnæði og fjárfesting í íbúðum sé enn langt undir langtímameðaltali.

Hámark náist á næsta ári

Jafnframt sé einnig talsverður skortur á starfsfólki í ferðaþjónustu, og nefnir greiningadeildin að þeir hafi áður bent á að flytja þurfi inn allt að 5.000 manns fram til ársins 2018 til að sinna nýjum störfum.

Þó spáir Seðlabankinn því að framleiðsluspenna í hagkerfinu nái hámarki snemma á næsta ári en fari svo dalandi samhliða hækkandi atvinnuleysi.

Launahækkanir ekki farið út í verðlag

Verðbólguspá Seðlabankans hafi jafnframt breyst mikið en nú er gert ráð fyrir 3,2% verðbólgu í stað 4,1% á næsta ári. Er mat greiningardeildarinnar að fyrirtæki hafi í auknum mæli ákveðið að ýta ekki launahækkunum út í verðlag svo þær hafa skapað minni verðbólguþrýsting en gert var ráð fyrir áður.

Er það þó að miklu leyti að þakka gengisstyrkingu krónunnar, en verðbólgan muni eins og Seðlabankinn spáir, aukast þegar innflutningsverðlag hætti að lækka og áhrifin af gengishækkuninni fjari út.

Gjaldskrárlækkanir og niðufelling tolla

Verð á farsímaþjónustu og á innfluttum bílum hefur lækkað undanfarið, auk 3,2% lækkunar á vörum IKEA, væntanlegrar gjaldskrárlækkunar hjá Veitum, dótturfyrirtækis Orkuveitunnar, um áramótin og á sama tíma tollaniðurfellingar á vörur og þjónustu, svo fremi sem stefna stjórnvalda haldist óbreytt.

Seðlabankinn útilokar þó hvorki frekari lækkun, né hækkun stýrivaxta, ef forsendur breytast.