Íslenska bankakerfið er hlutfallslega of stórt og kostnaður við rekstur þess er of hár, að mati Ingólfs Guðmundssonar, ráðgjafa og fyrrverandi yfirmanns í Landsbankanum. Nefnir hann sem dæmi að vaxtamunur íslenskra banka hafi aukist ár frá ári og sé nú mun meiri en gerist og gengur í löndunum í kringum okkur. „Þjóðhagslega er brýnt að lækka þennan vaxtamun sem bankakerfið tekur til sín og þar með að lækka sem fyrst vaxtakostnað fyrirtækja og einstaklinga,“ segir Ingólfur, sem unnið hefur skýrslu um stöðu bankakerfisins og leiðir til úrbóta.

Hann segir að vaxtamunur á útlánum, sem byggja á innlendri fjármögnun, hafi farið lægst niður fyrir 3%, en miðað við tölur frá bönkunum megi ætla að þetta hlutfall sé komið í um 5%. „Fyrir hrun var vaxtamunur á útlánum sem byggðum á erlendri fjármgönun lægri en sem þessu nemur. Reyndar var stór áhrifavaldur í falli bankanna útlánastarfsemi á óraunhæfum kjörum, en aðgangur að erlendu fjármagni er mikilvægur fyrir bankana.“ Hann segir að þessi hái vaxtamunur geri það líka að verkum að raunvextir á innlánsreikningum bankanna séu mjög lágir eða jafnvel neikvæðir á meðan útlánakjör eru of há fyrir íslensk fyrirtæki.

Landsbankanum breytt í heildsölubanka

„Ég hef lengi velt þessum hlutum fyrir mér, enda vann ég í Landsbankanum um langa hríð. Skýrsla Samkeppniseftirlitsins um fjármálakerfið sem kom út á dögunum varð hins vegar til þess að ég ákvað að skrifa þessa skýrslu. Eftirlitið bendir á marga af þeim þáttum sem ég nefni í minni skýrslu, m.a. of háan rekstrarkostnað bankanna, en mér þykir eftirlitið í raun gefast upp fyrir vandanum. Það segir að þennan vanda eigi að leysa með aukinni samkeppni og lætur þar við liggja.“

Ingólfur segir að ekki sé raunhæft að hægt sé að ná viðunandi árangri án breytinga á kerfinu. Stærsta breytingin sem hann leggur til er að Landsbankanum verði breytt í heildsölubanka. Viðskiptabankastarfsemi hans verði seld til annarra fjármálafyrirtækja og starfsemi Byggðastofnunar og LÍN verði samtvinnuð við Landsbankann. „Með þessum breytingum er hægt að ná fram mörgum ákjósanlegum markmiðum. Heildsölubanki ætti auðveldara með að fá lánshæfismat hjá erlendum matsfyrirtækjum og gæti þá verið gluggi fyrir innlenda banka til að sækja erlent lánsfé. Þeir eru núna að stíga fyrstu skrefin í átt að því að ná í erlenda fjármögnun, en kjörin sem þeim bjóðast eru bara ekki ásættanleg. Heildsölubanki sem næði í lánin og miðlaði þeim til innlendu bankanna gæti lækkað þennan kostnað.“ Segir hann að þessar breytingar geti skilað ríkinu, sem væntanlega mun eiga nær allt hlutafé í Landsbankanum eftir útgáfu hins svokallaða skilyrta skuldabréfs, um 130-150 milljörðum króna í sölutekjur. Þá muni beinn sparnaður nema um 12,6 milljörðum króna á ári.

Bakvinnslan sameinuð

Önnur stór breyting sem hann leggur til er að stórtölvuvinnsla og önnur bakvinnsluverkefni bankanna verði samþætt í einu fyrirtæki. „Bankarnir eru allir með stórar og dýrar bakvinnsludeildir og felst í þeim mikill kostnaður fyrir bankakerfið sem velt er yfir á viðskiptavinina. Stærsti þröskuldurinn fyrir breytingum sem þessum verður líklega Samkeppniseftirlitið, en markmið breytinganna er að lækka rekstrarkostnað bankanna og þar með bæta kjör sem viðskiptavinum þeirra bjóðast.“

Hvað varðar Íbúðalánasjóð segir Ingólfur að fjárhagsleg staða hans sé ekki sjálfbær og samkeppnisstaða hans gagnvart öðrum lánastofnunum afleit þrátt fyrir ríkisábyrgð. Leggur hann því til að sjóðurinn hætti frekari lánveitingum. Lánasafnið, sem áfram verði með ríkisábyrgð, verði flutt yfir í Landsbankann við umbreytingu hans í heildsölubanka.