Örvar Guðni Arnarson, fjármálastjóri Ísfélagsins í Vestmannaeyjum, segir í samtali við Morgunblaðið í dag að stjórnvöld haldi fram röngum tölum í umræðum um veiðigjöldin. Útgerðin þurfi að greiða 8 til 10 milljarða króna meira á ári en fullyrt hefur verið. 10. grein frumvarpsins um veiðigjald, sem samþykkt var í gærkvöldi á Alþingi, þar sem fjallað er um útreikning á auðlindarentu, sé í engu samræmi við útreikning sjávarútvegsráðuneytisins.

Sigmundur Ernir Rúnarsson, einn þriggja þingmanna Samfylkingar í atvinnuveganefnd, staðfestir við Morgunblaðið að tölur um áætluð veiðigjöld í nýju áliti nefndarinnar byggist á nýju lögunum. Samkvæmt álitinu fara veiðigjöld stigvaxandi og hækka úr 15,2 milljörðum fiskveiðiárið 2013/2014 í rúma 20 milljarða tímabilið 2016/2017.

Samkvæmt áætlun Örvars sem byggir á nýsamþykktu frumvarpi verða gjöldin allt að 25 milljarðar fiskveiðiárið 2013/2014 og allt að 30 milljarðar fiskveiðiárið 2016/2017.