Þrátt fyrir að heimsmarkaðsverð á kísilmálmi hafi lækkað verulega síðasta hálfa árið eða svo eru langtímahorfur jákvæðar, að sögn sérfræðings hjá greiningarfyrirtækinu CRU Group, sem sérhæfir sig í greiningu markaða með málma og aðrar námuafurðir. Jorn de Linde er aðalhöfundur Silicon Metal Market Outlook, skýrslu sem CRU gefur út tvisvar á ári, þar sem markaðurinn með kísilmálm er greindur.

Hann segir að undanfarna mánuði og misseri hafi eftirspurn minnkað töluvert í sögulegu samhengi. Þar skipti máli ótti manna við að samdráttur sé yfirvofandi í hagkerfi heimsins, meðal annars vegna efnahagslegra vandræða í Kína. „Menn eru að kaupa minna í einu og hafa verið að halda að sér höndum.“Þá segir de Linde að aðrir þættir, svo sem styrking Bandaríkjadals og veiking annarra mynta eins og norsku krónunnar, hafi jafnað út samkeppnisumhverfið hvað framleiðslukostnað varði sem hafi orðið til þess að samdráttur í framleiðslu hafi ekki orðið eins hraður og áður.

Til lengri tíma litið segist de Linde bjartsýnn á kísilmálm. „Í mjög langan tíma hefur meðal eftirspurnaraukning á ári verið í kringum 5%-6%. Jafnvel þegar lækkunin í fyrra er tekin með var eftirspurnaraukningin á árunum 2014 og 2015 yfir þessu meðaltali. Vöxturinn hefur verið háður hagvexti í nýmarkaðsríkjum, sem undanfarið hafa verið leikin grátt. Þá hefur sólarorkugeirinn vaxið hratt og gerum við ráð fyrir því að sá geiri muni vaxa um að minnsta kosti 10% á ári næstu árin á heimsvísu. Þetta þýðir að eftirspurn eftir kísilmálmi verður mikil til lengri tíma litið.“

Nánar er fjallað um málið i Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér .