„Þetta tölur eru úr lausu lofti gripnar,“ segir Sigurður Atli Jónsson, forstjóri MP banka, spurður út í verðmat á bankanum. Fram kom í netritinu Kjarnanum í dag að bankinn er metinn á 0,3 til 0,6 sinnum eigið fé sem skilar verðmati upp á 1,5 til þrjá milljarða króna. Til samanburðar var eigið fé MP banka rúmir fimm milljarðar króna í lok síðasta árs. Í Kjarnanum sagði jafnframt að ólíklegt sé að hluthafar bankans sem lögðu honum til eigið féð muni endurheimta það að fullu við sölu á bankanum. Nokkrir hluthafar eru líka sagði hafa sóst eftir því að undanförnu að selja hluti sína í bankanum.

Sigurður segist ekki þekkja til þess verðmats sem á að hafa verið gert á bankanum og ekki heldur orðið þess var að viðskipti hafi átt sér stað með hlutabréf MP banka.

„Ég veit ekki um hugmyndir einstakra hluthafa um áhuga á sölu á bréfum og hef ekki orðið var við nein viðskipti með bréfin í langan tíma,“ segir hann.